Þröng föt merki um óöryggi

Victoria Beckham segir að þröng föt hafi í hennar tilfelli …
Victoria Beckham segir að þröng föt hafi í hennar tilfelli verið merki um óöryggi. AFP

Fatahönnuðurinn Victoria Beckham segir að fatastíll hennar hafi breyst mikið með árunum og þegar hún líti til baka sjái hún að þegar hún klæddist þröngum fötum hafi hún verið mjög óörugg með sjálfa sig. 

Fatastíll Beckham í dag er gjörólíkur því sem hún klæddist á árum sínum í poppsveitinni Spice Girls. Í dag er hún þekkt fyrir að klæðast fallega sniðnum drögtum og víðari fötum en áður. 

Beckham er verndari samtakanna Graduate Fashion Foundation sem heldur nú sína árlegu tískuviku. Af því tilefni svaraði hún spurningum nemenda í tískuhönnun. Einn nemendanna spurði hana út í hennar persónulega stíl. 

„Þegar ég var í Spice Girls voru stílistar sem klæddu okkur upp, sjálf hef ég aldrei notast við stílista persónulega. Ég klæddist oft þröngum aðsniðnum kjólum með korseletti, og ég á nokkra þannig kjóla, en minn persónulegi stíll er orðinn mun afslappaðri. Þegar ég lít til baka þá held ég að það hafi verið merki um óöryggi þegar ég var alltaf í mjög þröngum aðsniðnum fötum,“ sagði Beckham. 

Victoria Beckham á Spice Girls-árum sínum.
Victoria Beckham á Spice Girls-árum sínum.

Beckham segir að eftir að hún varð 4 barna útivinnandi móðir hafi hún aðlagað fatastíl sinn því. „Ég bara get ekki hlaupið um stúdíóið að gera allt á háum hælum. Ég er mjög upptekin, ég er mamma, eiginkona og í stúdíóinu á hverjum degi. Ég man á einni sýningu í New York þá var ég í karlmannlegum buxum og íþróttaskóm og allir fóru yfir um, „Guð minn góður, hún er í íþróttaskóm“,“ sagði Beckham. 

Hún segir að eftir því sem hún varð eldri jókst sjálfstraust hennar og hún lærði einnig hvaða föt fara henni vel. Hún lærði líka hvaða föt og snið auka sjálfstraust hennar og eru á sama tíma þægileg. 

Victoria Beckham veit hvað fer henni vel.
Victoria Beckham veit hvað fer henni vel. AFP
mbl.is