Ótrúlegur fjöldi ólögráða barna stundar ljós

Ragna Hlín Þorleifsdóttir, húðlæknir á Húðlæknastöðinni, segir sólarvörn bestu forvörnina gegn öldrun húðarinnar. Notkun sólarvarnar sé ekki bundin við neinn árstíma heldur sé þjóðráð að bera hana á húðina allan ársins hring til að viðhalda heilbrigði. Á sama tíma og mikilvægi sólarvarnar er í umræðunni segir hún sífellt fleiri ungmenni stunda ljósabekki af krafti.

„Því miður hefur verið mikil aukning í rauninni og við erum að sjá svolítið svona „comeback“ á ljósum og sérstaklega hjá yngra fólki eins og menntaskólakrökkum. Það er eins og þetta sé að komast aftur í tísku,“ segir hún.

Húðlæknar hafa um þónokkurt skeið hamrað á mikilvægi sólarvarnar til að veita ótímabærum öldrunareinkennum viðnám, viðhalda góðum raka í húðinni og fyrirbyggja húðkrabbamein.

„Ég hitti náttúrulega mjög mikið af unglingum útaf bóluvandamálum og ég spyr gjarnan að þessu því ég er kannski að setja þau á lyf sem gera mann næmari fyrir sólinni og það er ótrúlegur fjöldi sem er að stunda ljós.“

Í tísku að stunda ljós

Dæmi eru um að aldurstakmörk á sólbaðsstofum séu ítrekað virt að vettugi en einnig þekkist það að foreldrar og forráðamenn gefi ungmennum leyfi þrátt fyrir að þeir hafi ekki aldur til. Ragna Hlín segir íslenskt veðurfar lítið hafa með það að gera að ungmenni stundi ljósabekki í auknum mæli heldur sé líklega um tískufyrirbæri að ræða. 

„Þetta er rosalega sorgleg þróun og eitthvað sem við þurfum að taka á vegna þess að ljósin eru rosalega skaðleg fyrir húðina,“ segir Ragna með mikilli áherslu og bendir á að ljósabekkir og sígarettur falli undir sama hatt þegar litið er til krabbameinsáhættu.

„Þannig maður hugsar alltaf um sígarettur og lungnakrabbamein en það er nákvæmlega það sama með ljósabekki og húðkrabbamein. Og þegar ég segi þetta við foreldrana og börnin þá bara missa þau andlitið.“

Smelltu hér til að horfa á Dagmál í heild sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál