Hvernig er hægt að losna við poka undir augum?

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni og Húðvaktinni svarar spurningum …
Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni og Húðvaktinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Ljósmynd/Helgi Ómars

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni og á Húðvaktinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem finnst hún vera bólgin í kringum augun og spyr hvað sé til ráða. 

Hæ hæ.

Hvað er hægt að gera þegar maður er með bólgur í kringum augun sem veldur því að það myndast vökvafylltir pokar undir augum og lekur stundum niður á kinnbein?

Kveðja,

SD

Sæl SD. 

Augnpokar (e. festoons) sem ná þá frá neðra augnlokinu og niður á kinnar geta verið mjög hvimleiðir og valdið fólki mikilli vanlíðan þar sem þeir hafa mikil áhrif á útlitið. Fólk virðist þá bæði vera eldra en það í rauninni er og þreyttara.  

Það eru nokkrir þættir sem hafa áhrif á myndun augnpoka en sterkasti þátturinn af þeim öllum eru erfðir en einnig getur sólin ýtt undir myndun þeirra þar sem hún ýtir undir ótímabæra öldrun húðarinnar og svo hefur aldurinn að sjálfsögðu áhrif.

Þéttleiki og teygjanleiki húðarinnar minnkar með aldri og minnkar þá á þessum viðkvæma stað þar sem þunna húð neðri augnloksins mætir þykkari húð kinnarinnar. Ef veikleiki er í þessu bili þá getur safnast vökvi og augnpoki myndast. Þetta er eitt af algengustu vandamálunum sem koma upp á borð til okkar þar sem margir telja að fylliefni geti hjálpað til við að draga úr augnpokunum.

Fylliefni er ekki góð meðferð gegn þessu vandamáli og geta einmitt gert vandamálið verra þar sem þau draga í sig vökva. Oft koma þessir augnpokar ekki í ljós nema fyrr en eftir fylliefnismeðferð eins og var tíðrætt núna á dögunum þegar að nýlegar myndir af Kylie Jenner birtust þar sem hún var augljóslega með augnpoka eftir fylliefni. 

Ef augnpokarnir eru miklir er eina ráðið að fara í skurðaðgerð hjá lýtalæknum eða augnskurðlæknum þar sem bæði neðra augnlok og augnpokinn er lagaður. Það getur einnig verið mismunandi ástæða fyrir augnpokunum og t.d. getur fitupúði sem er staðsettur undir neðra augnlokinu verið farinn að leka niður og sjást þá greinilega undir húðinni. Skurðlæknarnir meta þetta hverju sinni og laga þá undirliggjandi orsökina.

Ef augnpokarnir eru vægir eða meðalslæmir er annar valmöguleiki í stöðinni og það er kollagen örvandi lasermeðferð eins og með Fraxel laser, Erbium laser eða CO2 laser. Oftast þarf að meðhöndla þá þrisvar sinnum á 6-8 vikna fresti nema þá í CO2 lasernum sem þarf kannski bara eina meðferð en batatíminn er þá mun lengri, algengt 10-14 dagar. 

Mjög góður árangur hefur náðst með því að nota Fotona laserinn sem er Erbium laser og það sem er kallað non-ablatífur, það er að segja býr ekki til göt á húðina og vinnur þá vinnuna sína undir húðinni án þess að það sjáist á henni eftir meðferðina. Þessi meðferð heitir Fotona SmoothEye og gætir mikilla vinsælda víða. Hér fyrir ofan getur þú séð fyrir og eftir myndir af manneskju sem fór í þessa meðferð. 

Vona að þetta hafi svarað spurningu þinni.

Kær kveðja

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Jennu Huld spurningu HÉR. 

Hér má sjá fjórar myndir af mannesku sem fór í …
Hér má sjá fjórar myndir af mannesku sem fór í laser til að laga poka undir augum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál