Hvað getur fólk gert til að koma í veg fyrir sortuæxli?

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir svarar spurningum lesenda Smartlands.
Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir svarar spurningum lesenda Smartlands. Samsett mynd

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manneskju sem veltir fyrir sér hvað hægt sé að gera til þess að koma í veg fyrir sortuæxli. 

Sæl Jenna. 

Ein í fjölskyldunni var að greinast með sortuæxli. Hvað er sortuæxli og hvað getur maður gert til að koma í veg fyrir það? Er það hættulegt?

Kveðja, 

NB

Sortuæxli getur litið svona út.
Sortuæxli getur litið svona út.

Sæl NB. 

Sortuæxli er alvarlegasta gerð húðkrabbameina og leggst einkum á húðsvæði sem verða fyrir miklu sólarljósi. Sortuæxli getur verið hættulegt ef greint of seint en auðvelt að lækna greinist það á byrjunarstigi.

Sortuæxligeta myndast alls staðar á líkamanum. Fyrstu einkenni um sortuæxli eru yfirleitt:

 • Fæðingablettur sem hefur verið óbreyttur lengi en hefur skyndilega breyst að einhverju leyti, t.d. breytt um lögun eða lit.
 • Nýr blettur sem er ólíkur fæðingablettunum sem eru nú þegar til staðar á líkamanum, t.d. er ósamhverfur, hefur óreglulega jaðra og hefur fleiri en einn lit.
 • Til að hjálpa okkur við að fylgjast með fæðingarblettunum okkar og nýjum húðbreytingum sem birtast á húð okkar er gott að fara í gegnum ABCDE kerfið í huganum:  
  • A: Ósamhverfa (e.asymmetrical) í blettinum, þ.e.a.s helmingar þess eru ólíkir.
  • B: Óreglulegir jaðrar (e.border) í blettinum.
  • C: Nýr litur (e.color) í blettinum eða bletturinn marglita.
  • D: Bletturinn stækkað nýlega (e.diameter), þá stærri en 5-6 mm
  • E: Breytingar í fæðingarbletti (e.evolving), t.d. nýr litur, stækkað, breytt um lögun.

Hvað veldur sortuæxli?

Sortuæxli verður til þegar eitthvað fer úrskeiðis í litafrumum (e. melanocytes) húðarinnar. Undir eðlilegum kringumstæðum er þroskaferli fruma húðarinnar mjög vel stjórnað og skipulagt þar sem nýrri frumur ýta eldri frumum upp um ytri lög húðarinnar  þannig á endanum deyja þær og detta af. Ef einhver af þessum frumum hefur orðið fyrir genaskaða, eins og t.d. við sólbruna,  þá geta þær frumur farið að vaxa óeðlilega og myndað húðkrabbamein. Einn helsti skaðvaldurinn á erfðaefni húðfrumnanna er útfjólubláa geislunin frá sólinni. Þessa útfjólubláa geislun er einnig að finna í ljósabekkjum og hefur Alþjóða heilbrigðisstofnunin skilgreint bæði sólarljós og ljósabekki sem þekkta krabbameinsvalda eins og t.d. reykingar. En þar sem sortuæxli geta einnig komið á húð þar sem ekkert sólarljós nær til, t.d. við endaþarm og á milli táa,  er alveg klárt að aðrir þættir eins og erfðir hafa einnig áhrif á þróun sjúkdómsins.

Þekktir áhættuþættir:

 • Ljós húð sem brennur auðveldlega. Ljós húð inniheldur minna af litarefni (melaníni) til að verja húðina.
 • Að hafa brunnið í sól eða ljósabekk, sérstaklega fyrir 18 ára aldur.
 • Búseta við miðbaug eða í mikilli hæð yfir sjávarmáli þar sem útfjólubláu geislarnir eru sterkari. 
 • Að hafa yfir 50 fæðingarbletti eða hafa fæðingarbletti með frumubreytingum (dysplastíska fæðingarbletti). 
 • Ef náinn ættingi hefur greinst með sortuæxli.
 • Langtíma notkun ónæmisbælandi lyfja, til dæmis í tengslum við líffæraígræðslu eða gigtarsjúkdóma. 

Hvernig getum við komið í veg fyrir sortuæxli og önnur húðkrabbamein?

 • Notaðu sólarvörn alla daga með minnst SPF 30, helst 50 eða hærri.
 • Forðastu að sólin skíni beint á þig, notaðu sólhatt og sólgleraugu.
 • Forðastu sólina yfir miðjan daginn á sumrin. UV stuðull er alþjóðlegur stuðull sem mælir beint áhrif útfjólublás ljóss á húðina. Í mörgum löndum er greint frá honum í daglegum veðurspám til að upplýsa fólk um hversu sterk sólin sé og hversu mikla sólarvörn sé nauðsynlegt að nota. Því hærri UV stuðull, því minni viðveru þolir húðin og verður fyrr fyrir skaða. Almennt er miðað við að UV-stuðull yfir 3 sé hættulegur fyrir húðina.
 • Mjög mikilvægt er að vernda börn og ungt fólk (einkum undir 20 ára aldri) gegn of mikilli sól, þar sem líkurnar á að fá sortuæxli í húð eru meiri hjá þeim sem hafa verið mikið og óvarin í sól sem börn og unglingar. 
 • Mælt er gegn allri ljósabekkjanotkun.
 • Fylgstu með fæðingarblettunum þínum þannig að þú takir eftir breytingum
 • Mælt er með að allir sem hafa áhættuþátt eða blett með ofangreind einkenni fylgist með húð sinni og leiti álits húðsjúkdómalæknis um einkenni og eftirlit.

Kær kveðja, 

Jenna Huld Eysteinsdóttir

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Jennu Huld spurningu HÉR. 

mbl.is
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Valgeir Magnússon
Valgeir Magnússon
Ásdís Ósk Valsdóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál