Sló átján ára gamalt met

Sandra Sigurðardóttir, til vinstri, á landsliðsæfingu í vikunni.
Sandra Sigurðardóttir, til vinstri, á landsliðsæfingu í vikunni. mbl.is/Golli

Átján ára gamalt leikjamet var slegið í efstu deild kvenna í knattspyrnu í gærkvöld þegar Valur og FH mættust á Valsvellinum í áttundu umferð deildarinnar.

Sandra Sigurðardóttir, markvörður Vals og íslenska landsliðsins, varð þá leikjahæsta konan í efstu deild á Íslandi þegar hún lék sinn 234. leik í deildinni og sló metið sem Sigurlín Jónsdóttir hafði átt frá árinu 1999.

Sigurlín lék með ÍA og KR á tuttugu ára feril í efstu deild, frá 1980 til 1999, og hafði þá spilað 233 leiki í deildinni. Það met hefur staðið allar götur síðan, þar til Sandra sló það í gærkvöld.

Sandra er þrítug að aldri, er frá Siglufirði, og hefur leikið samfleytt í efstu deild frá árinu 2001 en þá spilaði hún sinn fyrsta leik, fjórtán ára gömul. Þá varði hún mark sameiginlegs liðs Þórs, KA og KS. Hún spilaði með því til ársins 2004 og varði mark þess í 38 leikjum í efstu deild.

Sandra gekk þá til liðs við Stjörnuna og lék þar samfleytt í ellefu tímabil, frá 2005 til 2015, en var þó stærstan hluta tímabilsins 2011 í röðum Jitex í sænsku úrvalsdeildinni. Sandra spilaði 170 leiki með Garðabæjarliðinu í deildinni, skoraði eitt mark, og vann með því þrjá Íslandsmeistaratitla og þrjá bikarmeistaratitla.

Hún kom síðan til Vals fyrir tímabilið 2016 og spilar nú sitt annað ár með Hlíðarendafélaginu. Þar hefur hún nú spilað 26 leiki í deildinni.

Sandra lék fyrst með A-landsliði Íslands árið 2005 og á 16 A-landsleiki að baki en hún hefur átt fast sæti í landsliðshópnum mestallan þann tíma.

Sandra hélt hreinu í þessum stóra áfangaleik en Valur vann öruggan sigur, 4:0.

Sandra Sigurðardóttir ver í leik með Val gegn Þór/KA.
Sandra Sigurðardóttir ver í leik með Val gegn Þór/KA. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert