Gríðarlega mikilvægur sigur Fjölnis á FH

Steven Lennon sækir að marki Fjölnismanna í dag.
Steven Lennon sækir að marki Fjölnismanna í dag. mbl.is/Golli

Fjölnir vann gríðarlega mikilvægan 2:1-sigur á FH í Pepsi-deild karla í knattspyrnu á heimvelli sínum í Grafarvoginum í dag. Fjölnir er nú fjórum stigum frá fallsæti, þegar tveimur umferðum er ólokið. Fjölnir vann einnig fyrri leik liðanna í Kaplakrika fyrr í sumar.

Fjölnir byrjaði leikinn nokkuð vel og kom sér í ágætis stöður og nældu í hornspyrnur. Fyrsta alvöru færi leiksins var hins vegar gestanna í FH. Matija Dvornekovic átti þá skot af stuttu færi sem Þórður Ingason varði vel. Robbie Crawford tók frákastið en skotið hans fór framhjá. Það reyndist besta færi FH í hálfleiknum.

Birnir Snær Ingason fékk besta færi Fjölnis í hálfleiknum en skotið hans eftir að hafa farið illa með vörn FH fór rétt framhjá. Staðan í leikhléi var hins vegar markalaus eftir afar bragðdaufan fyrri hálfleik.

Fjölnir byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og fékk Birnir Snær Ingason gott færi eftir aðeins nokkrar sekúndur en Gunnar Nielsen varði skotið hans af stuttu færi vel. Skömmu síðar voru Fjölnismenn hins vegar komnir yfir, Gunnar Nielsen átti þá skelfilega sendingu, beint á Igor Jugovic sem skoraði með stórkostlegu skoti af um 35 metra færi, upp við hliðarlínuna.

FH-ingar jöfnuðu korteri fyrir leikslok. Davíð Þór Viðarsson átti þá skot sem Þórður Ingason varði en náði ekki að halda, Matija Dvornekovic var fyrstur að átta sig og skoraði af öryggi úr frákastinu. Þætti Igor Jugovic var hins vegar ekki lokið því hann kom Fjölni aftur yfir, mínútu fyrir leikslok er hann kláraði með hnitmiðuðu skoti utan teigs í bláhornið. FH-ingum tókst ekki að jafna á nýjan leik og mikilvægur sigur Fjölnis staðreynd.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is.

Fjölnir 2:1 FH opna loka
90. mín. Leik lokið Gríðarlega mikilvægur sigur Fjölnis í dag. Fjölnismenn eru nú fjórum stigum fyrir ofan fallsæti.
mbl.is