Hvaða stórþjóðir koma í haust?

Íslenska landsliðið kynnist andstæðingum sínum í dag.
Íslenska landsliðið kynnist andstæðingum sínum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í dag ræðst hvaða tvö stórlið úr knattspyrnuheiminum koma til Reykjavíkur í haust og mæta íslenska karlalandsliðinu í hinni nýju Þjóðadeild knattspyrnusambands Evrópu. Ísland leikur sem kunnugt er í A-deild keppninnar og í hádeginu í dag verður dregið í riðla keppninnar, en í riðlakeppninni leika öll lið gegn öllum, heima og að heiman.

Liðunum 12 í A-deildinni verður skipt í fjóra þriggja liða riðla. Riðlakeppnin verður leikin í haust og kemst efsta lið hvers riðils í lokakeppni mótsins sumarið 2019, en neðsta liðið fellur niður og leikur í B-deild haustið 2020. Ísland mun mæta einu liði úr flokki 1 og einu liði úr flokki 2:

Flokkur 1: Þýskaland, Portúgal, Belgía, Spánn.

Flokkur 2: Frakkland, England, Sviss, Ítalía.

Ísland er í styrkleikaflokki með Pólverjum, Króötum og Hollendingum og getur því ekki mætt þessum þjóðum.

Athöfnin í Lausanne í dag hefst kl. 11 að íslenskum tíma. Fyrst verður dregið í riðla í D-deild, þá C- og B-deild, og loks deild íslenska liðsins. Alls leika 55 þjóðir í keppninni og eins og fyrr segir eru 12 efstu í A-deildinni. Íslendingar komust þar inn sem 10. sterkasta þjóðin samkvæmt styrkleikalista UEFA, sem byggði á árangri í undan- og lokakeppni HM 2014 (20%), undan- og lokakeppni EM 2016 (40%) og undankeppni HM 2018 (40%).

Leikið verður í riðlakeppni Þjóðadeildar með hléum frá 6. september til 20. nóvember í haust.

Þjóðadeildin er auk þess eins konar „varaleið“ í lokakeppni EM 2020. Hefðbundin undankeppni verður fyrir EM, þar sem 20 lið komast áfram úr 10 riðlum. Þá verða fjögur sæti eftir, eitt fyrir hverja deild Þjóðadeildarinnar. Lið sem ekki komast á EM með hefðbundnum hætti, en náðu góðum árangri í Þjóðadeildinni, leika um þessi sæti í mars 2020. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert