„Skrýtin“ vöðvameiðsli trufluðu byrjun Ragnars

Ragnar Sigurðsson
Ragnar Sigurðsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Sigurðsson gat ekki þreytt frumraun sína með liði Rostov um helgina þegar keppni hófst að nýju í rússnesku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Rostov mætti þá Krasnodar, sem Ragnar lék einmitt með árin 2014-2016, en tapaði 3:1.

„Ég tognaði aðeins í vöðva. Þetta er einhver skrýtinn vöðvi sem ég hef aldrei heyrt um áður og ég er ekkert búinn að æfa með liðinu núna í átta daga,“ segir Ragnar við Morgunblaðið. Meiðslin munu vera smávægileg, í vöðva sem segja má að sé á milli nafla og mjaðmakúlu, og vonast Ragnar til að geta mætt Zenit í næsta leik á sunnudag. Hann ætti því að vera klár í slaginn með íslenska landsliðinu í vináttulandsleikjunum við Mexíkó og Perú í Bandaríkjunum 23. og 27. mars.

„Ég var í myndatöku og byrja vonandi að æfa með liðinu aftur á morgun [í dag]. Það var leiðinlegt að missa af þessum leik, en sem betur fer var þetta ekki verra en þetta. Myndatakan sýndi að meiðslin væru nánast alveg farin svo planið er að ég verði klár í næsta leik,“ segir Ragnar, sem gat hins vegar tekið nær fullan þátt í undirbúningstímabilinu með sínu nýja liði.

Ragnar söðlaði um í Rússlandi og kom til Rostov frá Rubin Kazan í janúar og fékk sig um leið lausan allra mála hjá Fulham á Englandi en þaðan hafði hann verið lánaður til Kazan. Ragnar gerði samning við Rostvo sem gildir út leiktíðina en henni lýkur um miðjan maí.

Nánar er rætt við Ragnar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert