Blikar á toppnum eftir þrjú mörk í Kaplakrika

Blikar unnu sannfærandi sigur á FH á Kaplakrikavelli í kvöld. …
Blikar unnu sannfærandi sigur á FH á Kaplakrikavelli í kvöld. Hér fagna þeir einu af þremur mörkum sínum. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik er á toppi Pepsi-deildar karla í knattspyrnu eftir sannfærandi sigur á FH, 3:1, í Kaplakrika í kvöld. Blikar eru komnir með sex stig og búnir að skora sjö mörk í fyrstu tveimur leikjunum.

FH-ingar sitja eftir með þrjú stig að tveimur umferðum loknum.

Þetta er sjötta árið í röð sem Blikar sækja stig í Kaplakrika en þeir hafa ekki tapað deildaleik þar frá árinu 2012.

FH-ingar byrjuðu af meiri krafti og settu talsverða pressu á Blikana framan af fyrri hálfleiknum. Kópavogsliðið komst smám saman inn í leikinn og átti hættulegar skyndisóknir.

Geoffrey Castillion fékk gott færi á 13. mínútu þegar hann slapp inn í vítateig Blika en Gunnleifur Gunnleifsson varði í horn.

Sveinn Aron Guðjohnsen fékk opið færi fyrir Blika á 19. mínútu þegar boltinn hrökk inn fyrir vörn FH en hgann skaut beint á Gunnar Nielsen markvörð. Sveinn Aron var aftur ágengur þegar hann átti hættulegt skot rétt fram hjá marki FH á 26. mínútu.

Blikar náðu forystu á lokamínútu fyrri hálfleiks. Arnþór Ari Atlason lyfti boltanum inn fyrir vörn FH og inn í vítateiginn þar sem Gísli Eyjólfsson kom á ferðinni, einn gegn Gunnari, og vippaði boltanum svellkaldur yfir hann og í netið, 0:1.

Breiðablik byrjaði seinni hálfleikinn á sama hátt en liðið fékk hornspyrnu á 49. mínútu. Andri Rafn Yeoman tók hana og sendi inn í miðjan teig þar sem Elfar Freyr Helgason gnæfði hæst allra og skoraði með þrumuskalla upp undir þverslána, 0:2.

Og Blikar bættu enn í forystuna á 64. mínútu þegar þeir fengu aukaspyrnu um 25 m frá marki FH eftir skyndisókn. Jonathan Hendrickx tók hana og skoraði með föstu skoti með jörðu, nánast á mitt markið, og Gunnar Nielsen missti boltann klaufalega undir sig, 0:3.

FH-ingar svöruðu strax á 67. mínútu. Atli Viðar Björnsson, nýkominn inn á sem varamaður, var felldur í vítateig Blika og dæmd vítaspyrna. Úr henni skoraði Steven Lennon af öryggi, 1:3.

Leikurinn var bráðfjörugur allan tímann og FH-ingar reyndu af megni að minnka muninn. Blikar gáfu hins vegar fá færi á sér og voru nokkrum sinnum líklegir til að bæta við fjórða markinu eftir skyndisóknir.

FH 1:3 Breiðablik opna loka
90. mín. Willum Þór Willumsson (Breiðablik) fer af velli
mbl.is