„Nú fari að skilja á milli í deildinni“

Ólafur Kristjánsson þjálfari FH.
Ólafur Kristjánsson þjálfari FH.

Við spiluðum fannst mér prýðilega vel í kvöld og tókum völdin á vellinum, sérstaklega eftir 1:0 markið. Mér fannst sigurinn ekki í hættu. Við hefðum getað bætt fleiri mörkum við. En þetta var líka fínn viðsnúningur eftir að hafa lent undir í undanförnum leikjum og þurft að vinna okkur tilbaka,“ sagði Ólafur Kristjánsson þjálfari FH eftir 3:0 sigur liðsins á Víkingi R. á heimavelli í kvöld.

Með sigrinum er FH nú með 16 stig í fimmta sæti deildarinnar, aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Vals.

„Tilfinningin fyrir leik var sú að nú færi að skilja aðeins á milli í deildinni og við eigum leik við lið sem er með okkur í toppnum í næstu umferð og því er mikilvægt að vera með í þessum pakka og vinna leikinn í dag.“

Hinn ungi Jónatan Ingi Jónsson átti góðan leik í dag og skoraði tvö mörk.

„Hann spilaði feykilega góðan leik. Við ákváðum að leggja áherslu á hann í þessum leik. Víkingarnir eru líkamlega sterkir og leggja leikina svolítið uppí návígisleiki og föst leikatriði, sem er eðlilegt þar sem það er þeirri styrkleiki. En við vildum mæta með aðeins léttari menn og  mér fannst Jónatan til dæmis svara því kalli mjög vel eins og reyndar aðrir inni á vellinum. En hann hefur verið frábær á æfingum og sýnir okkur það alla vikuna að það eru miklir hæfileikar þarna og gaman að sjá þegar leikmenn færa það inn í leik sinn,“ sagði Ólafur að lokum. 

mbl.is