„Okkur var brugðið, þetta var ljót framkoma“

Halldór Jón og Andri Hjörvar.
Halldór Jón og Andri Hjörvar. Skapti Hallgrímsson

Þetta var mjög erfiður leikur. HK/Víkingsliðið var frábært. Þær stóðu sig vel og gáfu okkur góðan leik. Ég hreifst af mörgum leikmönnum þeirra. En að sama skapi fannst mér liðið mitt gott. Við skoruðum mörk á mjög gott lið,“ sagði Halldór Jón Sigurðsson þjálfari Þórs/KA eftir 2:5 sigur á HK/Víking í dag. 

„Ég er mjög ósáttur með að fá mörk á okkur úr föstu leikatriði. Af þessum fimm mörkum sem við höfum fengið á okkur í sumar eru tvö úr föstum leikatriðum sem við leggjum mikið uppúr að verjast. Það er dapurt að mínu viti. En fokk it, við erum búin að vinna næstum alla leiki og skoruðum fimm mörk á gott lið í dag, þannig að ég er ekki ósáttur við margt,“ bætti Halldór við.

Það vakti athygli í leiknum að Andri Hjörvar aðstoðarþjálfari Þórs/KA fékk að líta rauða spjaldið fyrir að stjaka við aðstoðardómara leiksins. Hvað var það sem gekk þar á?

„Hún (Kader Hancar leikmaður HK/Víkings) lemur í síðuna á leikmanni okkar og það fór fyrir brjóstið á Andra Hjörvari. Hann verður bara að fara í agabann. Þetta var ljót framkoma hjá leikmanni HK/Víkings og okkur var öllum brugðið. En þetta er ungur leikmaður sem stóð sig vel í dag og mun læra af þessu,“ sagði Halldór að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert