Kemst Stjarnan aftur á toppinn?

Sölvi Geir Ottesen, Guðjón Baldvinsson og Arnþór Ingi Kristinsson í …
Sölvi Geir Ottesen, Guðjón Baldvinsson og Arnþór Ingi Kristinsson í fyrri leik Stjörnunnar og Víkings í vor sem endaði 3:3. mbl.is/Valli

Fjórtánda umferðin í Pepsi-deild karla í knattspyrnu hefst í dag með tveimur leikjum og þar fær Stjarnan tækifæri til að komast upp fyrir Val og í efsta sætið á nýjan leik.

ÍBV tekur á móti KA í fyrri leik dagsins í Vestmannaeyjum klukkan 16. Þarna mætast tvö lið sem hafa rétt sinn hlut að undanförnu. Eyjamenn eru ósigraðir í síðustu þremur leikjum í deildinni og eru í níunda sæti með 13 stig. KA-menn eru búnir að vinna þrjá leiki í röð og hafa með því lyft sér upp í sjöunda sætið með 18 stig. 

Víkingur fær Stjörnuna í heimsókn klukkan 19.15 á Víkingsvöllinn. Stjarnan tapaði fyrir KR 1:0 í síðasta leik, það var fyrsti ósigur Garðbæinga síðan í annarri umferð og þeir misstu efsta sætið í hendur Valsmanna. Þeir fara aftur á toppinn með sigri, enda þótt Valsmenn geti síðan komist aftur uppfyrir þá annað kvöld þegar þeir heimsækja Fylki. Stjarnan er með 25 stig, þremur stigum á eftir Val.

Víkingar höfðu unnið þrjá leiki í röð áður en þeir töpuðu 4:1 fyrir Val í síðasta leik og eru í áttunda sæti með 18 stig. Þeir geta teflt fram Geoffrey Castillion, hollenska framherjanum sem skoraði 11 mörk fyrir þá í fyrra og var að snúa aftur í Fossvoginn sem lánsmaður frá FH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert