Frábær sigur Eyjamanna í Krikanum

Cédric D'Ulivo sækir að Sindra Snæ Magnússyni í dag.
Cédric D'Ulivo sækir að Sindra Snæ Magnússyni í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eyjamenn komu, sá og sigruðu þegar þeir sóttu FH-inga heim í fyrsta leik 16. umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag. ÍBV hrósaði 2:0 sigri og innbyrti þar með gríðarlega mikilvæg stig í baráttu liðsins í neðri helmingi deildarinnar.

Það var markaskorarinn og reynsluboltinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson sem sá um að tryggja Eyjamönnum sætan sigur en hann skoraði bæði mörk sinna manna. Það fyrra skoraði hann á 39. mínútu þegar hann batt endahnútinn á glæsilega sókn Eyjapeyja og á lokamínútu fyrri hálfleiks skoraði hann af öryggi úr vítaspyrnu sem dæmd var þegar boltinn skoppaði upp í höndina Robbie Crawford.

Eyjamenn, sem léku á köflum virkilega vel, voru skipulagðir, agaðir og baráttuglaðir, komust með sigrinum upp fyrir Víking í 8. sæti með 19 stig en FH-ingar eru áfram í 5. sæti með 23 stig og möguleikar liðsins á að blanda sér í baráttu um titilinn eru nánast úr sögunni eftir þennan ósigur.

FH-ingum tókst ekki að brjóta á bak aftur vel skipulagða vörn gestanna og uppskera liðsins á heimavelli hefur verið ansi rýr í sumar. Þetta var þriðja tap FH í Krikanum og liðið hefur aðeins unnið þrjá heimaleiki það sem af er í deildinni. Fram undan er barátta FH um að ná Evrópusæti og tímabilið gæti hreinlega verið undir á miðvikudaginn þegar liðið sækir Stjörnuna heim í undanúrslitum Mjólkurbikarsins.

FH 0:2 ÍBV opna loka
90. mín. Leik lokið +4 Eyjamenn fagna sætum og gríðarlega mikilvægum sigri.
mbl.is