„Aðalmálið að komast áfram“

Fyrirliði Þórs/KA, Sandra María Jessen (til hægri), var að vonum …
Fyrirliði Þórs/KA, Sandra María Jessen (til hægri), var að vonum kát eftir ljóst var að liðið komst áfram í Meistaradeildinni. Skapti Hallgrímsson

Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, spilaði á vinstri vængnum í gær þegar Þór/KA og Ajax gerðu markalaust jafntefli í lokaleik 1. riðils í Meistaradeild Evrópu. Var hún með stuðningsmenn Þórs/KA alveg ofan í sér og gátu þeir upplýst hana um að jafntefli myndi nær örugglega duga liðinu til að komast áfram í 32 liða úrslit keppninnar. Norðankonur voru þá orðnar tíu eftir að Ariana Calderon fékk rauða spjaldið og mæltust áhorfendur til þess að róa leikinn og taka góðan tíma í allt. Á hliðarlínunni hinum megin stóð svo þjálfarinn Donni og hvatti til blússandi sóknarleiks og fækkaði í vörninni. Hann vissi enda lítið um gang mála í öðrum leikjum og taldi liðið þurfa sigur.

Sæl Sandra. Þetta var skrautlegt þarna í lokin í þessum leik og í raun líka eftir að leiknum lauk og þið biðuð eftir staðfestingu frá UEFA um að liðið færi áfram í keppninni.

„Já mér fannst mjög óþægilegt að vera að gefa skipanir um að hægja á öllu á meðan Donni var að reka allt liðið í sóknina. Þetta var skrautlegt og skemmtilegt fyrst allt fór vel. Auðvitað vildum við vinna riðilinn en þó var aðalmálið að komast áfram. Það gaf okkur aukakraft í lokin að fá að vita að jafntefli myndi nánast örugglega tryggja okkur áfram og sem betur fer varð það svoleiðis.“

Þið fækkuðuð svo í vörninni og bættuð í sóknina, verandi manni færri. Þessi skipting tók nokkra stuðningsmenn algjörlega á taugum.

„Já, þjálfararnir okkar voru ekki alveg með það á hreinu að jafntefli myndi duga. Við getum öll haft gaman að þessu núna og aðalatriðið er að við fengum ekki mark á okkur. Það er frábært að hafa klárað keppnina með því að halda hreinu í öllum leikjunum.“

Hvernig er svo ferðin búin að vera, svona fyrir utan leikina?

„Ferðin er búin að styrkja okkur sem lið og efla liðsheildina. Þetta hefur góð áhrif á hópinn og við erum samstilltari ef eitthvað er. Ég tel að þetta muni hjálpa okkur þegar við komum heim og förum að berjast í Pepsi-deildinni.“

Nú eru mörg spennandi lið í pottinum til að mæta næst. Ertu með óskamótherja?

„Mér þætti mjög skemmtilegt að mæta mínum fyrrverandi félögum í Slavia Prag í Tékklandi. Ég hef trú á því að við gætum klárað þær,“ sagði fyrirliðinn glaðbeittur í lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert