Erum að stimpla okkur út úr toppbaráttunni

Ágúst Þór Gylfason.
Ágúst Þór Gylfason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, sagði við mbl.is eftir 2:1-tap fyrir Stjörnunni í toppbaráttuslag Pepsi-deildar karla í knattspyrnu að lið hans væri nánast búið að stimpla sig út úr baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.

„Það er fúlt að fylgja toppbaráttunni ekki eftir og mér sýnist við vera að stimpla okkur út úr henni, en við lögðum allt í þennan leik. Það var kraftur í okkur og við hefðum allan tímann átt að jafna þetta í seinni hálfleik. Fengum tvö góð færi til þess, en við náðum ekki að skora og því fór sem fór. Við verðum að bíta í það súra að vera þarna í þriðja sætinu og komnir skrefi á eftir Val og Stjörnunni,“ sagði Ágúst, svekktur eftir leik.

Staðan á toppn­um er nú þannig að Stjarn­an hef­ur 35 stig eins og Val­ur, og eiga þau bæði leik til góða sem er inn­byrðis viður­eign þeirra á miðviku­dags­kvöldið kem­ur. Breiðablik er hins veg­ar með 34 stig í þriðja sæt­inu.

„Þetta eru langsterkustu liðin í deildinni og Valur og Stjarnan þurfa að gera verulega upp á bak ef við eigum að blanda okkur inn í þetta. Ég sé það í raun ekki gerast,“ sagði Ágúst, en Breiðablik tapaði einmitt fyrir Val í síðasta leik. Hvað útskýrir það að Breiðablik tapar tveimur stórum leikjum í röð í baráttunni?

„Ég veit það ekki alveg. Heilt yfir vorum við fínir hér í 90 mínútur og vorum góðir í 45 mínútur á móti Val. Það er greinilega ekki nóg, en ég var nokkuð ánægður með liðið í þessum leik. Árangur snýst um það að vinna leiki, það er ekkert öðruvísi.“

Fyrst Ágúst segir að titilvonirnar séu úti, mun hann þá leggja aukið kapp á bikarúrslitaleikinn 15. september í von um titil í sumar? Þar mæta Blikar einmitt Stjörnunni.

„Nei nei. Sá leikur er náttúrulega stór fyrir okkur og auðvitað ætlum við okkur að vinna alla leiki. En deildin er þarna enn þá og við eigum fjóra leiki eftir þar. Þetta er bara stuð og tímabilið hefur verið gott, við þurfum bara að klára það almennilega,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert