Það er að duga eða drepast

Sandra María Jessen að skora fyrir Þór/KA gegn ÍBV.
Sandra María Jessen að skora fyrir Þór/KA gegn ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Þetta er bara hreinn úrslitaleikur fyrir okkur og það er að duga eða drepast,“ sagði Sandra María Jessen, framherji Íslandsmeistara Þórs/KA, við mbl.is en Þór/KA sækir nýkrýnda bikarmeistara Breiðabliks heim í toppslag Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu á morgun.

Þegar þrjár umferðir eru eftir af deildinni stendur slagurinn um Íslandsmeistaratitilinn á milli Breiðabliks og Þórs/KA. Blikarnir tróna á toppi deildarinnar, eru með 40 stig, en Þór/KA er í öðru sætinu með 38 og Stjarnan í því þriðja með 29 stig.

„Þetta er nánast búið ef Blikarnir vinna svo við verðum virkilega að sýna hvað í okkur býr. Við þurfum að eiga okkar allra besta leik og ég held að við séum tilbúnar að gera það,“ sagði Sandra María, sem hefur skorað 13 mörk í deildinni í sumar, jafnmörg og samherji hennar Stephany Mayor, en Blikinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir er markahæst með 16 mörk.

Þór/KA hafði betur í fyrri leik liðanna á Þórsvelli 2:0 og skoraði Sandra María bæði mörk Akureyrarliðsins en bæði Breiðablik og Þór/KA hafa tapað einum leik í deildinni í sumar. Tapleikur Íslandsmeistaranna kom gegn KR í byrjun ágúst.

„Við erum búnar að búa okkur vel undir þennan leik, hópurinn okkar lítur mjög vel út og það er einhugur í okkur að klára þetta verkefni,“ sagði Sandra María.

Það er skammt stórra höggi á milli hjá liði Þórs/KA en í næstu viku tekur liðið á móti Söru Björk Gunnarsdóttur og samherjum hennar í þýska stórliðinu Wolfsburg í fyrri leiknum í 32-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Hef næga orku í kroppnum

„Það er hver stórleikurinn á fætur öðrum hjá okkur í þessum mánuði. Við eigum eftir að mæta Breiðabliki, Val og Stjörnunni í deildinni og Wolfsburg í tveimur leikjum í Meistaradeildinni. Þetta verður ekki mikið stærra og það verður frábær reynsla fyrir okkur að spila við Wolfsburg. En núna er öll einbeiting okkar á leikinn á móti Breiðabliki og ótrúlegt en satt þá hefur ekkert verið minnst á leikinn við Wolfsburg eftir að ég kom heim frá landsliðsverkefninu,“ sagði Sandra María, sem fékk ekki að spreyta sig í leikjunum á móti Þýskalandi og Tékklandi í undankeppni HM á dögunum.

„Auðvitað vill maður alltaf fá að spila og er hungraður í það. En að sjálfsögðu verður maður að virða það að það er liðið sem skiptir mestu máli. Ég treysti þjálfaranum hundrað prósent. Hann tók þessa ákvörðun og maður verður bara að standa við bakið á honum varðandi það. En ég hef alla vega næga orku í kroppnum sem kemur vonandi að góðum notum á morgun,“ sagði Sandra María, sem hefur skorað sex mörk í 24 landsleikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert