Ísland betri aðilinn fyrsta korterið

Roberto Martinez og Thierry Henry ræða málin.
Roberto Martinez og Thierry Henry ræða málin. AFP

„Ísland var betri aðilinn fyrsta korterið. Við gerðum mjög vel í að verjast þá og urðum betri og betri eftir því sem leið á leikinn og stjórnuðum leiknum,“ sagði Roberto Martínez, þjálfari Belgíu, eftir 3:0-sigur á Íslandi á Laugardalsvelli í Þjóðadeildinni í kvöld. 

Martínez fylgdist vel með 6:0-tapi Íslands fyrir Sviss um helgina. 

„Það var búið að tala mikið um Sviss. Það var lítið hægt að gera í fyrsta markinu þar. Ísland spilaði vel þangað til það kom. Eftir það spilaði Sviss einfaldlega gríðarlega vel.“

Lukaku skoraði tvö mörk og hefur framherjinn spilað afar vel eftir að Martínez tók við belgíska liðinu. 

„Ég hef þekkt Lukaku afar lengi og það hjálpar. Við viljum að hann sé á réttum stað á réttum tíma. Lukaku verður að spila vel þar sem Michy Batshuayi spilar vel líka og hann vill halda sæti sínu.“

Martínez var ánægður með hvernig hans lið varðist föstum leikatriðum íslenska liðsins. 

„Við vitum að þeir eru ógnandi í föstum leikatriðum. Við erum með hávaxið lið og við náðum að stjórna vel í föstum leikatriðum og við reyndum að sækja hratt í kjölfarið,“ sagði Martínez. 

mbl.is