Hlutirnir ekki dottið með okkur

Samúel Kári Friðjónsson var fyrirliði íslenska liðsins í dag.
Samúel Kári Friðjónsson var fyrirliði íslenska liðsins í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við stjórnuðum leiknum allan tímann fannst mér og það er skelfilegt að fá á sig svona auðvelt mark á lokamínútunum,“ sagði Samúel Kári Friðjónsson, fyrirliði U21 árs landsliðs Íslands, í samtali við mbl.is í Árbænum í kvöld eftir 1:0-tap liðsins gegn Norður-Írum í 2. riðli undankeppni EM í knattspyrnu.

„Eyjólfur þjálfari fór vel yfir Norður-Írana fyrir leik og talaði um að við þyrftum að vera þéttir og mér fannst við fylgja þeim leiðbeiningum vel. Þeir skapa sér sama og ekkert í leiknum og einu hálffærin sem þeir fá voru eftir klaufagang hjá okkur sjálfum. Við spiluðum mjög vel í dag fannst mér og við vorum klaufar að skora ekki.“

Hlutirnir hafa ekki verið að falla með U21 árs landsliðinu í þessari undankeppni en Samúel Kári telur að þrátt fyrir allt sé framtíðin björt hjá liðinu.

„Við erum búnir að spila mjög góðan fótbolta í þessari undankeppni en hlutirnir hafa einfaldlega ekki dottið með okkur. Við erum með frábært lið og heilt yfir höfum við verið óheppnir. Það hefur hins vegar verið stígandi í þessu hjá okkur og við höfum bætt okkur mikið í hverjum leik og það er jákvætt,“ sagði Samúel Kári í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert