Eðlilega var Fanndís ekki sátt

Fanndís Friðriksdóttir í leik með landsliðinu.
Fanndís Friðriksdóttir í leik með landsliðinu. Eggert Jóhannesson

Það vakti athygli í vali Jóns Þórs Haukssonar á íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu fyrir Algarve-bikarinn sem opinberaður var fyrir stundu að Fanndís Friðriksdóttir var ekki valin í hópinn.

„Fanndís er að koma heim frá Ástralíu og að hefja sinn undirbúning með Val. Við töldum á þessum tímapunkti að hún þyrfti að vera heima í stað þess að koma strax með okkur á Algarve í tvær vikur og þrjá leiki.

Það hefur verið mikið álag á henni undanfarin ár, lítið um hlé, og við vonumst til þess að hún komi sterkari til baka í komandi verkefni með landsliðinu. Eðlilega var Fanndís ekki sátt við þessa ákvörðun, að koma ekki með liðinu út til Algarve. Ég greindi henni frá okkar forsendum. Hún er mikil keppnismanneskja eins og aðrar í þessu liði og það er enginn sáttur við að detta út úr landsliðshópi,“ sagði Jón Þór á fréttamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ sem nú stendur yfir.

Fanndís hefur nýlokið keppnistímabilinu með liði Adelaide United í áströlsku úrvalsdeildinni en hún og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir léku með liðinu í næstum fjóra mánuði. Fanndís á að baki 98 leiki með íslenska landsliðinu og hefur í þeim skorað 15 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert