Kári vann fyrsta leik tímabilsins

Andri Júlíusson skoraði fyrir Kára í kvöld.
Andri Júlíusson skoraði fyrir Kára í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fyrsti leikur í bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarnum, var leikinn í kvöld þegar Kári og Hamar mættust í Akraneshöllinni. Þar voru það heimamenn úr Kára sem unnu 5:1.

Hamar komst þó yfir, Bjarki Rúnar Jónínuson skoraði fyrsta mark keppninnar fyrir Hvergerðinga, en Sigurður Hrannar Þorsteinsson jafnaði mínútu síðar. Staðan 1:1 í hálfleik. Andri Júlíusson og Ragnar Leósson komu Kára svo í 3:1 áður en Stefán Ómar Magnússon skoraði tvö mörk og innsiglaði 5:1 sigur Kára sem leikur í 2. deild en Hamar er í 4. deild.

Alls verða leiknir tæplega 50 leikir í fyrstu tveimur umferðum bikarsins áður en dregið verður í 32-liða úrslit 23. apríl.

Mjólkurbikar kvenna hefst 3. maí, sama dag og dregið verður í 16-liða úrslitin karlamegin, og að loknum fyrstu tveimur umferðum Mjólkurbikars kvenna verður dregið í 16-liða úrslit 17. maí.

Úrslitaleikirnir fara að venju fram á Laugardalsvelli – úrslitaleikur Mjólkurbikars kvenna 17. ágúst og úrslitaleikur Mjólkurbikars karla 14. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert