Engin alvara í þessu hjá mér

Díana Dögg Magnúsdóttir handknattleikskona hjá Val t.v. Hún hefur fengið …
Díana Dögg Magnúsdóttir handknattleikskona hjá Val t.v. Hún hefur fengið félagsskipti yfir í KR í fótbolta. mbl.is/Hari

Díana Dögg Magnúsdóttir, landsliðskona í handknattleik og leikmaður Íslands- og bikarmeistaraliðs Vals í handknattleik fékk í dag félagsskipti yfir til knattspyrnuliðs KR frá ÍBV. Díana sagði í samtali við mbl.is að ekki stæði til að hún venti kvæði sínu í kross og hætti í handknattleik til snúa sér að fótboltanum af alvöru þrátt fyrir félagsskiptin.

„Þetta var skyndiákvörðun sem ég tók í gær. Hugsunin er að fá að æfa með KR-ingum meðan frí verður frá æfingum í handboltanum hjá Val,“ sagði Díana Dögg við mbl.is. „Það er engin alvara í þessu hjá mér. Ég reikna ekki með því að leika með KR. Fótboltaskórnir fara ekki í neinni alvöru af hillunni. Mig langar bara að sprikla með og vera í félagsskap.

Díana Dögg er í landsliðshópnum í handknattleik sem kemur saman til æfinga á mánudaginn vegna leikja við Spánverja í undankeppni  heimsmeistaramótsins sem fram fara 31. maí og 6. júní. Samanlögð úrslit leikjanna ráða hvort landsliðið tryggir sér þátttökurétt á HM sem fram fer í Japan í lok nóvember og í byrjun desember.

„Ef ég fer að æfa fótbolta verður það ekki fyrr en seint í júní enda er engin alvara í þessu hjá mér,“ sagði Díana Dögg sem síðast lék með uppeldisfélagi sínu, ÍBV, á Íslandsmótinu í fótbolta sumar 2016. Hún þótti ekki síður efnileg á fótboltavellinum en í handboltanum á sínum tíma og lék m.a. tvo landsleiki með U17 ára landsliðinu fyrir fáeinum árum og hefur skorað 5 mörk í 29 leikjum fyrir ÍBV í úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert