Fannst Íslendingarnir henda sér niður

Íslenska liðið fagnar sigurmarkinu gegn Albaníu í dag.
Íslenska liðið fagnar sigurmarkinu gegn Albaníu í dag. mbl.is/Eggert

„Sigur Íslands var óverðskuldaður,“ sagði Ítalinn Edoardo Reja, þjálfari Albaníu, þegar mbl.is spurði hann út í 1:0-tapið gegn Íslandi á Laugardalsvelli í dag, í undankeppni EM karla í fótbolta.

„Þetta var þannig leikur að hann réðist af miklu leyti á því hvort liðið skoraði fyrst. Fyrstu 20-30 mínúturnar, áður en Ísland skoraði, var í raun og veru leikplan Albaníu að ganga upp. Albanía hélt boltanum, og í 20-25 mínútur átti Albanía meira skilið en Ísland. Íslendingar eru mjög sterkir líkamlega, eins og ég hef sagt margoft, sérstaklega í loftinu, og því hélt Albanía boltanum helst á eigin vallarhelmingi og reyndi að finna smugur í gegnum vörn Íslands. Það hefði verið möguleiki ef leikurinn hefði þróast öðruvísi. En svo komu hræðileg mistök hjá vörninni, þar sem þrír leikmenn voru eins og keilur, stóðu bara og gerðu ekkert nema hræðileg mistök. Þetta var svona leikur, þar sem liðið sem skoraði fyrst væri líklegra til að landa sigri,“ sagði Ítalinn gamalreyndi.

Leikmenn íslenska liðsins lágu meira í grasinu en oftast áður í þessum leik og aðspurður hvort albanska liðið hefði spilað grófan leik svaraði Reja:

„Þeir voru sterkir, en einmitt þegar þeir áttu að stoppa manninn [Jóhann] þá var ekkert gert. Þá hefðum við átt að brjóta! Þetta var harður leikur, og fótbolti er harður leikur, en mér fannst íslensku leikmennirnir oft henda sér auðveldlega niður. En ég ítreka að þetta snerist að mestu leyti um það hvort liðið skoraði á undan. Það lið fékk stjórn á leiknum,“ sagði Reja, sem sagði „vindinn“ í Laugardalnum einnig hafa gert sínu liði erfitt fyrir í seinni hálfleik.

Edoardo Reja, landsliðsþjálfari Albaníu.
Edoardo Reja, landsliðsþjálfari Albaníu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert