KR-ingar eru óstöðvandi

Blikinn Aron Bjarnason með boltann á Meistaravöllum í kvöld. KR-ingurinn …
Blikinn Aron Bjarnason með boltann á Meistaravöllum í kvöld. KR-ingurinn Kennie Chopart og Blikinn Kolbeinn Þórðarson liggja eftir baráttu og fylgjast með. mbl.is/Arnþór

KR-ingar eru komnir með fjögurra stiga forskot á toppi Pepsi Max-deildarinnar í knattspyrnu eftir 2:0 sigur á Breiðabliki í toppslag deildarinnar á Meistaravöllum í Frostaskjóli í kvöld.

Rúmlega þrjú þúsund manns voru mættir til að fylgjast með leik tveggja bestu liða landsins um þessar mundir og þeir sáu KR-inga vinna sjöunda sigur sinn í röð í deildinni og þann fyrsta á Blikum á heimavelli í átta ár.

Gamli Breiðabliksmaðurinn Kristinn Jónsson skoraði glæsilegt mark á 8. mínútu. KR-ingar tóku stutt horn. Atli Sigurjónsson sendi boltann á Kristin, sem lék á leikmann Blika og skoraði með hnitmiðuðu skoti þar sem hann hreinlega lagði boltann í bláhornið fram hjá Gunnleifi Gunnleifssyni. Gamli maðurinn virðist hafa meiðst í bakinu í tilraun sinni til að verja skot Kristins og hann þurfti að fara af velli.

Óskar Örn Hauksson innsiglaði sigur heimamanna á 61. mínútu. Óskar skoraði með þrumuskoti utan teigs. Boltinn steinlá í miðju markinu en Hlynur Örn Hlöðversson, ungur og óreyndur markvörður Blikanna, fékk boltann nánast í gegnum sig og markið verður að skrifast að einhverju leyti á hann.

KR-ingar voru sterkari aðilinn lungann úr leiknum. Lið KR-inga var heilsteypt og það er greinilega mikið sjálfstraust hjá lærisveinum Rúnars Kristinssonar. Liðsheildin var öflug frá fremsta manni til hins aftasta og það er mikil stemning í Vesturbænum þessa dagana.

Blikarnir náðu sér aldrei á strik og þeir urðu hreinlega undir í baráttunni á flestum stöðum á vellinum. Kópavogsliðið náði lítið að skapa fram á við og mikið var um kýlingar og ómarkvissan leik hjá því að þessu sinni.

KR 2:0 Breiðablik opna loka
90. mín. Viktor Örn Margeirsson (Breiðablik) fær gult spjald
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert