Væntum mikils af Patrick

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals.
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er eðlilega hrikalega ánægður að fá Pat­rick aftur til okkar. Hann er frábær leikmaður og það er engin spurning að hann styrkir okkar lið til mikilla muna,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Íslandsmeistara Vals, við mbl.is en Valsmenn greindu frá því í gær að danski sóknarmaðurinn Patrick Pedersen er kominn aftur í Val og gerði fjögurra ára samning við Hlíðarendaliðið.

„Við höfum verið að leita að framherja í einhvern smá tíma. Hans nafn poppaði upp. Við fórum í smá vinnu og eftir að hafa rætt við hann og félagið hans í Moldóvu náðum við að landa honum. Patrick kom í morgun. Það er frí hjá liðinu í dag en hann mætir á æfingu á morgun. Hann er í toppstandi og ef félagaskiptin verða komin í gegn fyrir fimmtudaginn þá verður hann mjög líklega í leikmannahópnum á móti KA,“ sagði Ólafur en 12. umferð Pepsi Max-deildarinnar hefst með leik Vals og KA á Origo vellinum á fimmtudagskvöldið.

Patrick var frábær með Valsmönnum á síðustu leiktíð. Hann skoraði 17 mörk og hefur samtals skorað 47 mörk í 72 úrvalsdeildarleikjum með Val en eftir leiktíðina í fyrra var hann seldur til Sheriff í Moldóvu.

Patrick Pedersen í leik með Valsmönnum á síðustu leiktíð.
Patrick Pedersen í leik með Valsmönnum á síðustu leiktíð. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Við þekkjum Patrick vel og hann okkur og hann veit að hverju hann gengur hjá Val. Það þarf ekkert að skóla hann til á eitt eða annan hátt. Patrick er frábær fótboltamaður og toppdrengur og við væntum mikils af honum. Hann fellur vel inn í okkar hóp og það verður gaman að vinna með honum á nýjan leik,“ sagði Ólafur.

Eftir erfiða byrjun á tímabilinu hafa lærisveinar Ólafs náð að rétta úr kútnum. Þeir hafa unnið tvo leiki í röð og eftir að hafa setið í fallsæti um tíma eru Valsmenn komnir upp í sjötta sæti deildarinnar.

Ólafur Karl Finsen, sem hefur verið besti maður Vals í sumar, hefur verið frá vegna meiðsla í síðustu tveimur leikjum Vals í deildinni en vonir standa til að hann verði í leikmannahópnum gegn KA á fimmtudaginn.

„Ég held að Óli sé orðinn heill heilsu en það kemur betur í ljós á æfingunni á morgun. Hann æfði létt í gær og vonandi verður hann bara tilbúinn í KA leikinn,“ sagði Ólafur.

Spurður hvort frekari breytinga sé að vænta á leikmannahópnum sagði Ólafur;

„Nei. Staðan núna er sú að við erum ekki í leit að einhverjum leikmönnum og það er enginn að fara frá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert