Megum alveg vera í fýlu yfir þessu í kvöld

Gunnleifur Gunnleifsson og Elfar Freyr Helgason í leiknum við Vaduz …
Gunnleifur Gunnleifsson og Elfar Freyr Helgason í leiknum við Vaduz á Kópavogsvelli. mbl.is/Árni Sæberg

„Við verðum í fýlu í kvöld en þurfum svo að fara að hugsa um næsta leik,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður og fyrirliði Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir að liðið tapaði 2:1 á útivelli fyrir Vaduz frá Liechtenstein og féll úr leik í 1. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í kvöld.

Fyrri leikurinn í Kópavogi endaði með markalausu jafntefli og stefnan hjá Blikum var að skora snemma til þess að koma sér í góða stöðu. Leikurinn í Vaduz í kvöld var mun opnari en það voru heimamenn sem komust í 2:0 áður en Blikar minnkuðu muninn í uppbótartíma.

„Við vissum að ef við myndum skora eitt mark, sérstaklega á undan þeim, þá gætum við læst okkur niður og við vorum að kíkja eftir því. Við náðum því ekki. Þetta er gott lið, þeir biðu færis og við komum bara of seint til baka,“ sagði Gunnleifur.

Lögðum allt í þennan leik

Það var sól og heitt í veðri og þegar leið á fór að draga af mönnum.

„Það tók á fyrir útileikmennina. En mér fannst strákarnir standa sig vel og við lögðum allt í sölurnar í þennan leik. Það dugði bara ekki til, því miður,“ sagði Gunnleifur, sem spilaði sjálfur með Vaduz fyrir áratug og var því að snúa aftur á sinn gamla heimavöll í kvöld.

„Já, ég hitti eitthvað af fólki sem ég þekki. Þetta er voða vinalegt og gaman að koma aftur, en aðalmálið er að við ætluðum að vinna og fara áfram. Það gekk ekki svo maður er súr,“ sagði Gunnleifur.

Blikarnir hafa ekki langan tíma til þess að sleikja sárin, en þeir spila deildarleik á heimavelli við Grindavík strax á sunnudag.

„Við erum ennþá í góðum málum í deild og bikar heima, en við megum alveg grenja þetta í kvöld. Það er allt í lagi að vera í fýlu yfir þessu. Við tökum bara reynsluna frá þessu, það er glatað að falla út en það er búið og gert,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert