Blikarnir stöðvaðir í Liechtenstein

Guðjón Pétur Lýðsson í fyrri leiknum á Kópavogsvelli.
Guðjón Pétur Lýðsson í fyrri leiknum á Kópavogsvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Evrópudraumur karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu varð að engu í kvöld eftir að liðið tapaði 2:1 fyrir Vaduz frá Liechtenstein á útivelli í síðari leik liðanna í 1. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar. Liðið hefði þurft eitt mark í viðbót til þess að komast áfram.

Leikurinn var töluvert opnari en sá fyrri í Kópavogi sem endaði með markalausu jafntefli. Það var kraftur í báðum liðum í hitanum í Liechtenstein í kvöld. Heimamenn í Vaduz fengu besta færi fyrri hálfleiks þegar þeir áttu þrumuskot í þverslá eftir rúmlega 20 mínútna leik.

Besta færi Blika í fyrri hálfleik kom eftir fyrirgjöf Höskuldar Gunnlaugssonar, en varnarmaður Vaduz misreiknaði sig þá illa og endaði með því að negla eiginlega á eigið mark. Markvörður Vaduz var hins vegar örsnöggur að átta sig og bjargaði. Staðan markalaus í hálfleik.

Það fór aðeins að draga af Blikum þegar líða tók á síðari hálfleikinn og á 57. mínútu skoraði Vaduz fyrsta mark leiksins. Þeir fengu þá hornspyrnu og eftir rugling Blika að koma boltanum frá var Mohamed Coulibaly fyrstur að ráðast á boltann og skora. Staðan 1:0 fyrir Vaduz og ljóst að eitt mark myndi duga Blikum til að fara áfram.

Breiðablik gerði því dauðaleit að jöfnunarmarki en var skellt niður á jörðina rúmum 10 mínútum fyrir leikslok. Gunnleifur Gunnleifsson varði þá fast skot utan teigs, en Dominik Schwizer var fyrstur að átta sig og kom boltanum í netið. Staðan 2:0 fyrir Vaduz.

Blikarnir reyndu að komast inn í leikinn á ný og í uppbótartíma var þeim ágengt þegar Höskuldur Gunnlaugsson skallaði í netið. Í kjölfarið kom gríðarlegur kraftur í liðið í leit að markinu örlagaríka en leikmenn Vaduz héldu út og unnu 2:1. Bikarmeistarar Liechtenstein, sem leika í svissnesku B-deildinni, eru því komnir áfram í næstu umferð en Blikar eru úr leik.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Vaduz 2:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert