„Geggjuð tilfinning að klára þetta“

Systurnar Kristín Dís og Ásta Eir Árnadætur voru skiljanlega sáttar þegar mbl.is tók þær tali í Zenica í Bosníu eftir 3:1-sigur Breiðabliks gegn liði Sarajevó sem tryggði Blikum sæti í 32ja liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu.

„Það er geggjuð tilfinning að klára þetta og taka þrjá sigra,“ sagði Ásta, en Sarajevó-liðið var sterkasti mótherjinn í riðlinum. Hina leikina unnu Blikar 4:1 og 11:0. „Þær eru líkamlega sterkar og baráttuglaðar, en við vissum þeirra styrkleika og gátum spilað í gegnum það.“

Aðspurðar hvernig ferðin í Bosníu hafi verið í heild sinni sagði Kristín Dís:

„Þetta er búið að vera mjög skrautlegt en rosalega gaman og gaman að taka níu stig út úr þessu,“ sagði Kristín, en nú tekur við heimferð á morgun og áframhaldandi barátta um Íslandsmeistaratitilinn.

„Nú er þetta mót bara búið og Íslandsmótið byrjar aftur. Við fögnum þessu hérna úti en núllstillum okkur þegar við komum heim,“ sagði Ásta Eir við mbl.is í Bosníu, en nánar er rætt við þær í meðfylgjandi myndskeiði.

Breiðablik er komið áfram í 32ja liða úrslit Meistaradeildarinnar.
Breiðablik er komið áfram í 32ja liða úrslit Meistaradeildarinnar. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert