Fylkiskonur svo gott sem öruggar með sætið

Simone Kolander í baráttunni við Þórdísi Elvu Ágústsdóttur á Víkingsvelli …
Simone Kolander í baráttunni við Þórdísi Elvu Ágústsdóttur á Víkingsvelli í kvöld. mbl.is/Arnþór

Fylkiskonur fóru langleiðina með að tryggja sæti sitt í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, þegar liðið vann 2:0-sigur gegn HK/Víkingi í 14. umferð deildarinnar á Víkingsvelli í Fossvoginum í kvöld. Marija Radojicic og Bryndís Anna Níelsdóttir skoruðu mörk Fylkis í kvöld.

Heimakonur byrjuðu leikinn af krafti og Fatma Kara átti tvær ágætis skottilraunir á fyrstu mínútum leiksins sem Cecilía varði nokkuð þægilega. Þórdís Elva Ágústsdóttir fékk fyrsta færi Fylkiskvenna á 15. mínútu en skot hennar fór af varnarmönnum HK/Víkings og aftur fyrir. Á 17. mínútu tapaði Rut Kristjánsdóttir boltanum á afar slæmum stað eftir baráttu við Simone Kolander. Kolander renndi boltanum á Fötmu Köru sem sendi fyrir markið á Svanhildi Ylfu Dagbjartsdóttur sem var nánast ein gegn opnu marki en skot hennar fór í stöngina og út. Fylkiskonur refsuðu grimmilega og tíu mínútum síðar átti Margrét Björg Ástvaldsdóttir frábæra sendingu inn fyrir á Mariju Radojicic. Marija tók boltann snyrtilega með sér inn í vítateig HK/Víkings og lagði boltann framhjá Audrey Baldwin í marki HK/Víkings og staðan orðin 1:0.

Fimm mínútum síðar datt boltinn fyrir fætur Fötmu Köru í vítateig Fylkiskvenna eftir hornspyrnu en Fylkiskonur hentu sér fyrir skot hennar. Frákastið hrökk til Margrétar Evu en skot hennar var sömuleiðis varið af varnarmönnum Fylkis. Liðin skiptust á að sækja eftir þetta en tókst ekki að bæta við mörkum og staðan því 1:0 í hálfleik, Árbæingum í vil. Síðari hálfleikurinn fór afar rólega af stað. Eva Rut Ástþórsdóttir átti skot úr aukaspyrnu af 25 metra færi á 52. mínútu en skotið fór af varnarvegg Fylkiskvenna og aftur fyrir endamörk. á 56. mínútu fór Ída Marín Hermannsdóttir í laglegt þríhyrningsspil við Bryndísi Önnu Níelsdóttir. Bryndís sendi Ídu í gegn en skot hennar var lélegt og fór beint á Audrey í marki HK/Víkings.

Níu mínútum síðar átti Margrét Björg frábæra stungusendingu inn fyrir á Bryndísi Önnu sem tók boltann í fyrsta og vippaði honum af 20 metra færi yfir Audrey í markinu og staðan orðin 2:0. Leikurinn róaðiast eftir þetta en á 74. mínútu slapp Karólína Jack í gegn en skot hennar úr teignum fór ói þverslánna og út. Eftir þetta fjaraði leikurinn hægt og rólega út og Fylkiskonur fögnuðu dýrmætum sigri. HK/Víkingur er sem fyrr í neðsta sæti deildarinnar með 7 stig en Fylkr er áfram í fimmta sæti deildarinnar, nú með 22 stig, og liðið er svo gott sem öruggt um sæti sitt í deildinni.

HK/Víkingur 0:2 Fylkir opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið og Fylkiskonur eru svo gott sem öruggar um sæti sitt í deildinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert