„Ég á þetta meira skilið í ár“

KR-ingar fagna vel og innilega í leikslok.
KR-ingar fagna vel og innilega í leikslok. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Danski framherjinn Tobias Thomsen varð í kvöld Íslandsmeistari í knattspyrnu annað árið í röð. Það sem gerir titilinn ansi sérstakan hjá Thomsen er sú staðreynd að hann vannst á heimavelli Vals, þar sem Thomsen varð einmitt meistari síðasta sumar. 

„Þetta er mjög sérstakt. Ég átti góða tíma hjá Val, en þetta var fullkominn leikur fyrir okkur á þessum tímapunkti. Þetta er búið að vera langt tímabil, en við héldum ró okkar, líka þegar við vorum komnir með forystu í deildinni. Það var pressa á okkur, en við réðum mjög vel við hana.“

Daninn vildi þó ekki meina að hann væri lykillinn að því að verða Íslandsmeistari.

„Ég veit ekki með það. Það besta við þetta lið er hversu vel við vinnum saman. Það er enginn í liðinu sem er ekki reiðubúinn til að spretta 40-50 metra til baka fyrir liðsfélaga. Þjálfarateymið er svo mjög gott og við náum að aðlagast hverjum leik virkilega vel.“

Thomsen var ánægður með spilamennskuna í dag og sigurinn, sem var verðskuldaður og sanngjarn. 

„Við vitum að Valsiðið er gott og reynir að halda boltanum. Við hefðum getað farið betur með skyndisóknirnar okkar, en á þessu stigi tímabilsins skiptir það engu, það sem skiptir máli er að ná í sigrana og við eigum þennan titil skilið.“

Daninn segir titilinn í ár sætari, þar sem hann átti mun stærri hlut í honum. Thomsen skoraði aðeins eitt mark í 14 leikjum á síðasta tímabili (á móti KR) og var mikið á bekknum. Nú hefur hann skorað sex mörk og aðeins misst af einum leik. 

„Þetta er öðruvísi í ár. Ég hef spilað nánast hverja einustu mínútu í deildinni í sumar á meðan ég spilaði ekki eins mikið á síðasta ári. Þetta er sætara og ég á þennan titil meira skilið en í fyrra.“

mbl.is