Fögnuðu titlinum við elliheimilið Grund

Pálmi Rafn Pálmason og Óskar Örn Hauksson, fyrirliðar KR, fagna …
Pálmi Rafn Pálmason og Óskar Örn Hauksson, fyrirliðar KR, fagna Íslandsmeistaratitilinum fyrir utan Grund. Ljósmynd/@palmirafn

KR-ingar eru Íslandsmeistarar í knattspyrnu í 27. sinn en liðið fékk afhentan Íslandsmeistarabikarinn um helgina eftir 3:2-sigur gegn FH á Meistaravöllum í næstsíðustu umferð deildarinnar. KR var langbesta lið deildarinnar í sumar en liðið tryggði sér titilinn í 20. umferð Íslandsmótsins eftir 1:0-útisigur gegn Val á Hlíðarenda.

KR er með 11 stiga forskot á Breiðablik á toppi deildarinnar þegar ein umferð er eftir af tímabilinu en fáir höfðu trú á því að Vesturbæingar myndu fara langt í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn fyrir mót. Margir höfðu á því orð að meðalaldur liðsins væri of hár og þá var talað um liðið sem „Elliheimilið Grund“ í vinsælum hlaðvarpsþáttum hér á landi.

Var þar vísið í dvalarheimilið Grund sem er í Vesturbænum en þar dvelur fólk sem komið er á aldur. Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, er orðinn 35 ára gamall og Pálmi Rafn Pálmason, varafyrirliði liðsins, er 34 ára. Það var hins vegar ekki að sjá á spilamennsku þeirra félaga að þeir væru komnir á aldur í sumar.

Þeir birtu myndir af sér, með Íslandsmeistaratitilinn, fyrir utan dvalarheimilið Grund á samfélagsmiðlinum Twitter um helgina til þess að stinga upp í nokkra sérfræðinga sem fóru mikinn fyrir mót. Færslan hefur vakið mikla lukku og hafa 907 manns líkað við hana og þá hefur henni verið deilt 47 sinnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert