Fögnuðu titlinum við elliheimilið Grund

Pálmi Rafn Pálmason og Óskar Örn Hauksson, fyrirliðar KR, fagna …
Pálmi Rafn Pálmason og Óskar Örn Hauksson, fyrirliðar KR, fagna Íslandsmeistaratitilinum fyrir utan Grund. Ljósmynd/@palmirafn

KR-ingar eru Íslandsmeistarar í knattspyrnu í 27. sinn en liðið fékk afhentan Íslandsmeistarabikarinn um helgina eftir 3:2-sigur gegn FH á Meistaravöllum í næstsíðustu umferð deildarinnar. KR var langbesta lið deildarinnar í sumar en liðið tryggði sér titilinn í 20. umferð Íslandsmótsins eftir 1:0-útisigur gegn Val á Hlíðarenda.

KR er með 11 stiga forskot á Breiðablik á toppi deildarinnar þegar ein umferð er eftir af tímabilinu en fáir höfðu trú á því að Vesturbæingar myndu fara langt í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn fyrir mót. Margir höfðu á því orð að meðalaldur liðsins væri of hár og þá var talað um liðið sem „Elliheimilið Grund“ í vinsælum hlaðvarpsþáttum hér á landi.

Var þar vísið í dvalarheimilið Grund sem er í Vesturbænum en þar dvelur fólk sem komið er á aldur. Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, er orðinn 35 ára gamall og Pálmi Rafn Pálmason, varafyrirliði liðsins, er 34 ára. Það var hins vegar ekki að sjá á spilamennsku þeirra félaga að þeir væru komnir á aldur í sumar.

Þeir birtu myndir af sér, með Íslandsmeistaratitilinn, fyrir utan dvalarheimilið Grund á samfélagsmiðlinum Twitter um helgina til þess að stinga upp í nokkra sérfræðinga sem fóru mikinn fyrir mót. Færslan hefur vakið mikla lukku og hafa 907 manns líkað við hana og þá hefur henni verið deilt 47 sinnum.

mbl.is