Mitt eina markmið að svara Óla Jó og ég gerði það

Gary Martin fagnar öðru marka sinna í dag.
Gary Martin fagnar öðru marka sinna í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gary Martin var ánægður eftir leik ÍBV og Stjörnunnar í dag þar sem hann skoraði tvívegis í 3:2 ósigri Eyjamanna en mörkin tryggðu honum gullskóinn í úrvalsdeild karla í fótbolta 2019.

Martin hóf tímabilið með því að skora tvö mörk fyrir Val í þremur leikjum en síðan var hann látinn fara frá félaginu í kjölfarið á því að Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, vildi ekki nota hann meira. Martin spilaði þar með ekkert í næstu sjö umferðum en hóf að leika með ÍBV 1. júlí. Hann lék síðustu 12 leikina með Eyjamönnum og skoraði 12 mörk, tíu þeirra í síðustu sex leikjunum, og hirti með því gullskóinn með 14 mörk samtals.

Martin, sem er 29 ára Englendingur og hefur leikið á Íslandi frá 2010, að undanskildum árunum 2017 og 2018 þegar hann var í Noregi og Belgíu, sagði við mbl.is eftir leikinn í Garðabænum að hann hefði verið með markakóngstitilinn í huga þegar flautað var til leiks á Samsung-vellinum í dag. Þá var hann með 12 mörk, einu á eftir Hilmari Árna Halldórssyni, mótherja hans í Stjörnuliðinu.

Launin fyrir að leggja hart að sér

„Já, auðvitað, það var markmið mitt fyrir leikinn að ná gullskónum. Það er eigingirni að segja það en mitt eina markmið var að svara Óla Jó fyrir það sem hann gerði mér. Hann kenndi mér einum um að ég skyldi ekki falla inn í leikkerfið hjá honum. Mér tókst að troða því upp í hann í dag og ég nýt þess.

Ég naut ekki þess sem ég þurfti að ganga í gegnum í sumar, það var mér mjög erfitt, andlega, nýjar sögur um mig á hverjum degi og nafni mínu var slátrað í fjölmiðlum, allt út af einum manni sem sagði að ég félli ekki inn í kerfið. Þetta þurfti ég að fást við.

Fólk áttar sig kannski ekki á því að ég er útlendingur í þessu landi. Það er ekki skemmtilegt að sjá nafnið sitt í fjölmiðlum alla daga. Nú nýt ég þess að hafa troðið upp í hann og er mjög ánægður. Þetta eru launin fyrir að leggja hart að sér. Ég gerði það og uppsker núna samkvæmt því."

Gary Martin í leik Vals og ÍA í byrjun tímabilsins. …
Gary Martin í leik Vals og ÍA í byrjun tímabilsins. Hann skoraði tvö mörk í þremur leikjum með Val í deildinni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ákvað að  taka erfiðustu áskoruninni

Þú hlýtur að vera afar ánægður með útkomuna og tólf mörk í tólf leikjum fyrir botnlið í deildinni?

„Já, ég er það, en ég þurfti að ná góðum tengslum við liðsfélaga mína og þeir hjálpuðu mér gríðarlega mikið. Þetta var góð áskorun fyrir mig í sumar. Ég hefði hæglega getað farið í hvaða lið sem er en ég valdi neðsta liðið í deildinni, ég ákvað að taka erfiðustu áskoruninni sem ég fékk því ég vissi að þannig myndi ég ná fram öllu mínu besta. Þess vegna fór ég til Eyja og ég er mjög ánægður með þá ákvörðun.

Við fengum frábæra þjálfara og ég er viss um að ef Jeffsy (Ian Jeffs) og Andri (Ólafsson) hefðu verið með liðið frá byrjun tímabilsins þá hefðum við ekki verið í þessari stöðu. Æfingarnar og allt hefur verið fyrsta flokks og þeir hafa kennt mér meira en Óli Jó gerði hjá Val og gerðu mig að betri leikmanni. Æfingarnar voru frábærar og ég naut þess að æfa og spila með ÍBV.“

Hef mikinn áhuga ef tilboð kemur erlendis frá

ÍBV er fallið og þú ert samningsbundinn félaginu áfram. Margir efast um að þú munir í raun og veru leika með liðinu í 1. deildinni. Muntu gera það?

„Það er ekki mitt að ákveða. Á þessari stundu er ég leikmaður ÍBV og reikna með að vera það áfram. Ef ÍBV fær tilboð í mig, sem er ásættanlegt, og er betri áskorun en sú sem þegar er fyrir hendi fyrir mig, þá myndi ég vilja skoða það. Ef tilboð koma erlendis frá hef ég mikinn áhuga á að skoða það. Ef tilboð kemur frá íslensku liði þá þarf það að vera mjög gott til þess að ÍBV láti mig fara. Ég held að þeir vilji ekki gera það, sem er eðlilegt, og ég yrði alls ekki ósáttur við niðurstöðuna ef hún yrði sú að ég léki áfram í Eyjum.

Ég samþykkti að fara til ÍBV og ég elska að vera í Vestmannaeyjum. Að vera þar að sumarlagi er eitt það allrabesta sem ég hef upplifað. Það er fallegt og rólegt í Eyjum og ég þurfti á því að halda, þess vegna fór ég til ÍBV. Ég þurfti að komast burt frá Reykjavík og einbeita mér að fótboltanum. Sjáðu bara hverju það skilaði. Ég vann gullskóinn með neðsta liði deildarinnar.

Ásgeir Börkur Ásgeirsson og Gary Martin í leik ÍBV og …
Ásgeir Börkur Ásgeirsson og Gary Martin í leik ÍBV og HK í Eyjum í sumar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Þetta sumar var erfitt, sögurnar sem voru tómt kjaftæði tóku á mig. Óli Jó tók ákvörðun, hann vildi ekki hafa mig í liðinu og þannig var það. Hann ákvað þetta og ekkert við því að segja en ábyrgðin er öll hans. Ég gerði ekkert af mér, hann taldi að ég hentaði ekki í kerfið hjá Val og ekkert meira með það. Það sem ég var ósáttastur við var sögurnar sem fóru á kreik. Ég get spilað í hvaða leikkerfi sem er og með hvaða liði sem er.“

Darlington líklegast í vetur

Þú ert sagður vera á leið sem lánsmaður til þíns heimaliðs á Englandi, Darlington. Er það líklegast eins og staðan er núna?

„Já, sem stendur er líklegast að ég fari þangað en það getur allt gerst. Ef ég verð seldur til erlends liðs þá er það úr sögunni. Ef ég verð áfram hjá ÍBV er Darlington líklegast, þá færi ég heim í þrjá mánuði eftir áramótin og kæmi svo aftur til Vestmannaeyja. Ef þeir ætla hinsvegar að selja mig verður að sjálfsögðu ekkert af því,“ sagði Gary Martin.

mbl.is