Allt geggjað á Akranesi

Bjarki Steinn Bjarkason geysist fram hjá Birki Má Sævarssyni á …
Bjarki Steinn Bjarkason geysist fram hjá Birki Má Sævarssyni á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Fyrsta orðið sem mér dettur í hug er gleði, sagði Viktor Jónsson, leikmaður ÍA, í samtali við mbl.is eftir 4:1-sigur liðsins gegn Val í 4. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.

Viktor skoraði fyrsta mark ÍA, ásamt því að leggja upp hin þrjú mörk liðsins fyrir þá Tryggva Hrafn Haraldsson, Bjarka Stein Bjarkason og Steinar Þorsteinsson. Patrick Pedersen skoraði eina mark Valsmanna í upphafi síðari hálfleik.

„Við gerðum bara nákvæmlega það sem Jói Kalli [Jóhannes Karl Guðjónsson] lagði upp með fyrir leikinn. Við vörðumst vel og pressuðum þá hátt uppi á vellinum. Við héldum skipulagi allan tímann og ætli það hafi ekki verið það sem skóp sigurinn þegar allt kemur til alls.

Þetta small hjá okkur í kvöld og það sem við erum búnir að vera reyna gera í fyrstu leikjum tímabilsins. Við vitum að við erum góðir í þessu þótt þetta hafi ekki alveg fallið með okkur í fyrstu leikjunum. Það er fyrst og fremst gaman að fara heim með 3 stig eftir alla vinnuna sem við lögðum á okkur í kvöld.“

Viktor átti frábæran leik í kvöld en hann hefur byrjað Íslandsmótið í ár sem kantmaður eftir að hafa spilað sem framherji nánast allan sinn feril.

„Þetta er klárlega einn af mínum betri leikjum í efstu deild og ég er virkilega ánægður með mína frammistöðu og auðvitað hjá liðinu í heild sinni. Ég er að fíla mig vel úti á kanti og það er gott að vera ekki alltaf með bakið í markið.

Það er gaman að vera meira í spilinu og vera meira með boltann í staðinn fyrir að vera einhver veggur þarna fremst. Þetta opnar líka fleiri dyr fyrir mig sem fótboltamann og gaman að prófa eitthvað nýtt.“

Viktor gekk til liðs við ÍA frá Þrótti Reykjavík fyrir tímabilið 2019 og honum líður mjög vel á Akranesi.

„Mér líður hrikalega vel upp á Skaga og þetta er frábær staður til þess að vera á. Fólkið er frábært, þjálfarinn, félagið og strákarnir í liðinu líka þannig að það er allt geggjað við að vera þarna,“ bætti Viktor við í samtali við mbl.is.

mbl.is