Topplið Vals í fallsæti á sama tíma í fyrra

Lasse Petry skoraði fyrsta mark leiksins.
Lasse Petry skoraði fyrsta mark leiksins. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Valur er kominn á topp Pepsi Max-deildar karla í fótbolta eftir 3:1-sigur á Fjölni á útivelli í kvöld. Hefur Valur unnið þrjá leiki í röð eftir frekar hæga byrjun á mótinu. Fjölnir er enn á botninum með aðeins þrjú stig og án sigurs, en liðið hefur ekki fengið eitt einasta stig á heimavelli í sumar.

Valsmenn byrjuðu af krafti og sóttu mikið í upphafi leiks. Það skilaði sér í fyrsta marki leiksins, en það gerði danski miðjumaðurinn Lasse Petry. Skoraði hann með góðu skoti úr teignum eftir að Fjölnismönnum mistókst að koma boltanum í burtu eftir hornspyrnu.

Báðum liðum gekk illa að skapa sér alvörumarktækifæri eftir markið og gerðist lítið markvert þangað til Valsmenn bættu við sínu öðru marki á 39. mínútu er ungverski varnarmaðurinn Péter Zachán varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir sprett Valgeirs Lunddals Friðrikssonar upp vinstri kantinn, en Valgeir er uppalinn Fjölnismaður. Lítið gerðist eftir markið og var staðan í leikhléi því 2:0.

Sigurður Egill Lárusson skoraði þriðja mark Vals.
Sigurður Egill Lárusson skoraði þriðja mark Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristinn Freyr Sigurðsson fékk glæsilegt færi til að skora þriðja markið snemma í seinni hálfleik en hann setti boltann framhjá úr dauðafæri á fjærstönginni eftir góðan undirbúning Arons Bjarnasonar.

Fjölnismenn refsuðu því skömmu síðar, eða á 52. mínútu, var staðan orðin 2:1. Guðmundur Karl Guðmundsson átti þá fyrirgjöf á Jóhann Árna Gunnarsson sem kláraði afar snyrtilega framhjá Hannesi Þór Halldórssyni í marki Vals. 

Leikurinn varð hinsvegar töluvert erfiðari fyrir Fjölnismenn á 58. mínútu er Ingibergur Kort Sigurðsson missti stjórn á skapi sínu í eitt augnablik eftir að Haukur Páll Sigurðsson braut á honum. Ingibergur brást illa við og sparkaði í Hauk löngu eftir að Jóhann Ingi Jónsson dæmdi aukaspyrnu og dómarinn hafði engra kosta völ en að reka sóknarmann Fjölnis af velli. 

Fjölnismenn eru enn án sigurs.
Fjölnismenn eru enn án sigurs. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Valsmenn nýttu sér liðsmuninn og Sigurður Egill Lárusson skoraði þriðja markið á 70. mínútu með fallegri afgreiðslu eftir undirbúning Kristins Freys Sigurðssonar. Fleiri urðu færin ekki og Valsmenn fögnuðu þriðja sigrinum í röð. 

Valsmenn á allt öðrum stað

Valur er með 19 stig í toppsætinu eftir níu leiki. Þegar liðið hafði leikið níu leiki síðasta sumar var liðið aðeins með sjö stig og í fallsæti. Það er því allt annað að sjá Valsmenn en á sama tíma á síðasta tímabili og er Heimir Guðjónsson greinilega byrjaður að ná til sinna leikmanna. 

Það var enginn Patrick Pedersen hjá Val í kvöld, en það kom ekki að sök. Sigurður Egill Lárusson brá sér í framlínuna og hann skilaði því hlutverki vel enda með gríðarlega hæfileikaríka leikmenn í kringum sig til að skapa usla. Aron Bjarnason verður bara betri og betri með Val og Kristinn Freyr Sigurðsson hefur ekki spilað jafn vel í langan tíma. Með þessa menn í stuði er alltaf hætta þegar Valsmenn sækja.

Kaj Leo í Bartalsstovu átti hinsvegar ekki sinn besta leik. Færeyingurinn hefur aðeins skorað eitt mark í 24 deildarleikjum með Val og verið ákveðin vonbrigði. Kaj Leo er duglegur, en þegar kemur að síðasta þriðjunginum verður hann að gera betur. 

Sebastian Hedlund og Rasmus Christiansen eru búnir að gera miðvarðarstöðurnar að sínum og það verður áhugavert að sjá hvað Orri Sigurður Ómarsson og Eiður Aron Sigurbjörnsson gera á næstu vikum, en þeir hljóta að vera allt annað en sáttir með að verma varamannabekkinn leik eftir leik. Þá var Ólafur Karl Finsen allan leikinn á bekknum og hljóta dagar hans hjá Vals bráðum að vera taldir. 

Vesen í Grafarvogi

Fjölnismenn hafa náð í öll þrjú stigin sín í sumar til þessa á útivöllum. Eftir fimm leiki á heimavelli er liðið án stiga, hefur skorað þrjú mörk og fengið á sig fimmtán. Það var ljóst fyrir leiktíðina að sumarið gæti orðið erfitt fyrir Fjölni og sú er raunin. Liðið hefur ekki jafnað sig á að missa þrjá bestu leikmennina sína fyrir leiktíðina og er liðið í basli. 

Ingibergur Kort Sigurðsson fékk beint rautt spjald.
Ingibergur Kort Sigurðsson fékk beint rautt spjald. mbl.is/Árni Sæberg

Það bætti ekki úr skák að Ingibergur Kort Sigurðsson, einn sprækasti sóknarmaður liðsins, lét reka sig út af með rautt spjald fyrir kjánalegt pirringsbrot um miðjan seinni hálfleikinn, fljótlega eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Fjölnismenn mega ekki missa hausinn þegar á móti blæs. 

Liðið hefur sýnt á útivöllum að liðið getur náð í úrslit með góðum leik. Fjölnismenn hafa náð í jafntefli á erfiðum útivöllum gegn KR, KA og Víkingi Reykjavík og það virðist henta liðinu töluvert betur að leyfa hinu liðinu að vera meira með boltann og svo sækja hratt, en það reynist of erfiðara á heimavelli. Liðið verður að læra betur á hvernig skal ná í úrslit á heimavelli í efstu deild, ef ekki á mjög illa að fara. 

Fjölnir 1:3 Valur opna loka
90. mín. Birkir Heimisson (Valur) á skot sem er varið Fast en beint á Atla Gunnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert