KR og Breiðablik unnu úrvalsdeildarslagina

Grétar Snær Gunnarsson úr Fjölni með áhugaverð tilþrif í kvöld.
Grétar Snær Gunnarsson úr Fjölni með áhugaverð tilþrif í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

KR og Breiðablik unnu í kvöld úrvalsdeildarslagi í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í fótbolta og tryggðu sér sæti í átta liða úrslitunum. 

Breiðablik vann 3:0-sigur á Gróttu á heimavelli. Kwame Quee og Gísli Eyjólfsson komu Breiðabliki í 2:0 áður en Brynjólfur Andersen Willumsson gulltryggði öruggan sigur með marki fimm mínútum fyrir leikslok. 

KR og Fjölnir gerðu 2:2-jafntefli í Pepsi Max-deildinni á dögunum á Meistaravöllum en í kvöld voru KR-ingar sterkari og unnu 2:0-sigur á sama velli. Eftir markalausan fyrri hálfleik skoruðu Óskar Örn Hauksson og Kristján Flóki Finnbogason fyrir KR í seinni hálfleik. 

HK bauð upp á markaveislu í Kórnum gegn Aftureldingu og vann 6:2-sigur. Andri Freyr Jónasson kom Aftureldingu yfir í upphafi leiks en Guðmundur Þór Júlíusson, Atli Arnarson og Stefán Ljubicic komu HK í 3:1. 

Alexander Aron Davorsson minnkaði muninn í 3:2 á 51. mínútu en rétt eins og eftir fyrra mark Aftureldingar svaraði HK með þremur mörkum. Guðmundur Þór Júlíusson skoraði sitt annað mark á 76. mínútu og þeir Ívar Orri Gissurarson og Ari Sigurpálsson bættu við mörkun undir lokin. 

mbl.is