Landsliðskona til Vals

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, er gengin í raðir Vals.

Félagið greindi frá þessu í dag. 

Gunnhildur Yrsa hefur undanfarin ár leikið með Utah í Bandaríkjunum en þar hefur keppni verið frestað vegna kórónuveirunnar. Þar áður lék hún í Noregi með Arna Björnar, Bodö, Stabæk og Vålerenga. 

Gunnhildur Yrsa er lánuð til Vals út keppnistímabilið.

Gunnhildur Yrsa ætti að vera Valsliðinu mikill liðsstyrkur en önnur landsliðskona Fanndís Friðriksdóttir er úr leik hjá Val þar sem hún er í barnsburðarleyfi. Þær eru hins vegar ólíkir leikmenn. Fanndís leikur gjarnan á kantinum eða í framlínunni en Gunhildur Yrsa er miðtengiliður. 

Gunnhildur Yrsa er uppalin hjá Stjörnunni og varð Íslands- og bikarmeistari með Stjörnunni. Hjá Val hittir fyrir samherja sína úr því liði, Söndru Sigurðardóttur og Ásgerði Stefaníu Baldursdóttur. Hún er 31 árs gömul og á að baki 65 A-landsleiki fyrir Ísland. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert