Þurftum að setja í næsta gír

Aron Bjarnason
Aron Bjarnason mbl.is/Arnþór Birkisson

Valsarar unnu sjöunda sigurinn í röð í Pepsi Max-deildinni er þeir lögðu Víkinga úr Reykjavík að velli, 2:0, á Hlíðarenda í kvöld. Gestirnir úr Fossvoginum seldu sig dýrt og voru betra lið leiksins í fyrri hálfleik en staðan var markalaus í hléi og Valsarar færðu sig svo upp á skaftið.

„Við ræddum það í hálfleik, að við þyrftum að setja í næsta gír og spila betur. Við sýnum það svo strax í byrjun seinni hálfleiks og náum marki,“ sagði Aron Bjarnason í samtali við mbl.is að leik loknum en hann sjálfur kom Völsurum yfir á 53. mínútu og þar með á bragðið.

„Þeir voru ekki að skapa sér mikið en við þurftum að gefa í til að vinna leikinn. Víkingar eru með gott lið og við þurftum að eiga toppleik til að vinna þá.“

Valsarar hafa nú, eins og áður segir, unnið sjö leiki í röð í deildinni og eru með sjö stiga forystu á toppnum. „Spilamennskan hefur kannski verið misjöfn en við komumst alltaf yfir línuna og náum úrslitum. Ég er heilt yfir nokkuð sáttur en auðvitað viljum við alltaf gera aðeins betur,“ sagði Aron. Valur mætir Stjörnunni, sem er í öðru sæti, um næstu helgi, en hann telur það þó ekki öðruvísi leik en aðra.

„Við höfum verið að mæta hörku liðum í síðustu leikjum. Við mætum öllum liðum eins og förum í alla leiki til að vinna þá,“ sagði Aron Bjarnason við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert