Óstöðvandi Valsarar og ergilegir Víkingar

Kristinn Freyr Sigurðsson sækir að marki Víkinga fyrr í sumar.
Kristinn Freyr Sigurðsson sækir að marki Víkinga fyrr í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Valur vann sjöunda deildarsigurinn í röð er liðið lagði Víkinga úr Reykjavík að velli á Hlíðarenda í kvöld, 2:0, í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu.

Valsarar voru búnir að vinna sex leiki í röð fyrir einvígi kvöldsins og því sigurstranglegir þegar flautað var til leiks. Víkingar á hinn bóginn höfðu ekki unnið í síðustu fjórum. Engu að síður voru það gestirnir sem voru beittari í byrjun leiks og heilt yfir sterkari aðilinn fram að hálfleik. Ágúst Eðvald Hlynsson var sérstaklega sprækur í sóknarleik þeirra en engin mörk litu dagsins ljós.

Eftir markalausan fyrri hálfleik tóku Valsarar forystuna á 53. mínútu þegar Aron Bjarnason skoraði laglegt mark. Fyrirliðinn Haukur Páll Sigurðsson átti þá stungusendingu á sóknarmanninn á hægri kantinum, sem stakk sér inn í teig, sveigði sér frá tæklingu varnarmanns og skoraði með laglegu skoti, stýrði boltanum í fjærhornið.

Sóknarleikur Víkinga þyngdist aðeins eftir því sem leið á leikinn og þá vantaði mark en það voru svo að lokum bara Valsarar sem bættu við. Sigurður Egill Lárusson skoraði í galtómt markið eftir laglegan undirbúning Kaj Leo í Bartalsstovu sem rændi Sölva Geir Ottesen boltanum og lagði hann fyrir opið mark.

Valsarar eru nú með 31 stig, sjö á undan Stjörnunni í öðru sæti. Víkingar detta niður í níunda sæti, eru með 14 stig.

Herslumunurinn

Það hlýtur að fylgja því nokkurt ergelsi og sálarstríð að styðja Víkinga í sumar. Þeir eru með gott lið; vel mannað og oft gríðarlega vel spilandi. Þarna eru á mála margreyndir atvinnumenn í bland við unga og spennandi stráka sem eiga framtíðina fyrir sér. Þeir spila, á köflum, eins og bestu lið landsins en það vantar eitthvað upp á. Kannski ekki nema herslumuninn?

Víkingar voru sprækir í fyrri hálfleik gegn toppliðinu og Íslandsmeistaraefnum Valsara. Óttar Magnús Karlsson og Nikolaj Hansen voru ógnandi fram á við og varnarmenn Vals áttu í fullu fangi með Ágúst Eðvald. Þetta eru tvö fín fótboltalið með góða leikmenn innanborðs en stóri munurinn á Val og Víkingi var einfaldlega sá, að annað liðið kann að vinna.

Heimamenn voru í vandræðum á köflum í fyrri hálfleik en þeir eru agaðir, skipulagðir og jafnvel þegar önnur lið sækja og pressa, þá er ekkert óðagot á þeim. Frábær tilþrif Arons Bjarnasonar skiluðu svo fyrsta markinu og við það virtust Víkingar hreinlega koðna niður. Það kórónaði svo dapurt kvöld þeirra þegar fyrirliðinn Sölvi Geir tapaði boltanum klaufalega til að gefa annað mark leiksins og þá voru vonir Víkinga allar. Gestirnir úr Fossvoginum voru einfaldlega ekki nógu klókir og sennilega ekki tilbúnir til að vinna svona leiki í hverri viku.

Valsarar halda hins vegar bara áfram að malla og það verður gríðarlega spennandi að sjá leik Vals og Stjörnunnar um næstu helgi. Auðvitað er nóg eftir af mótinu en strákarnir á Hlíðarenda fara langleiðina með mótið, vinnist sigur þar. Fyrst fara þeir þó á Skagann á fimmtudaginn kemur en Víkingur heimsækir FH í Kaplakrikann.

Valur 2:0 Víkingur R. opna loka
90. mín. Þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert