Þróttur vann toppslaginn í Vogum - gríðarleg spenna í deildinni

Hermann Hreiðarsson er í góðri stöðu með lið Þróttar í …
Hermann Hreiðarsson er í góðri stöðu með lið Þróttar í Vogum. Ljósmynd/Þróttur

Baráttan um tvö sæti í 1. deild karla í fótbolta er orðin  gríðarlega hörð eftir að Þróttur úr Vogum lagði Kórdrengi í toppslag í dag, Selfyssingar unnu en Njarðvíkingar töpuðu dýrmætum stigum á heimavelli.

Kórdrengir hefðu verið nánast öruggir með 1. deildarsætið með sigri í Vogum í dag en það voru Þróttarar, undir stjórn Hermanns Hreiðarssonar, sem höfðu betur, 1:0. Andri Jónasson skoraði sigurmarkið á 57. mínútu.

Selfyssingar sigruðu KF 3:2 á Selfossi og skoruðu þrjú mörk á síðustu sex mínútum fyrri hálfleiks eftir að hafa lent undir skömmu áður. Ingi Rafn Ingibergsson, Þór Llorens Þórðarson og Ingvi Óskarsson skoruðu fyrir Selfyssinga.

Njarðvíkingar fóru illa að ráði sínu á heimavelli gegn botnliði Dalvíkur/Reynis. Ivan Prskalo kom Njarðvík yfir en Áki Sölvason jafnaði fyrir norðanmenn og lokatölur 1:1.

Völsungur sigraði ÍR á dramatískan hátt á Húsavík, 1:0, þar sem Kaelon Paul Fox skoraði sigurmarkið í uppbótartímanum. Þar með komust Völsungar úr fallsæti í fyrsta skipti á tímabilinu.

Víðir úr Garði er hinsvegar kominn í fallsæti eftir skell  gegn Haukum í Hafnarfirði, 6:1. Tómas Leó Ásgeirsson skoraði tvö marka Hauka.

Þegar þrjár umferðir eru eftir eru Kórdrengir með 43  stig á toppnum, Þróttur úr Vogum 40 og Selfoss 40 stig en Njarðvík er með 38 stig. Þessi fjögur lið eru búin með alla innbyrðis leiki sína.

Botnbaráttan er orðin  gríðarlega hörð en Völsungur er með 14 stig, Víðir 13 og Dalvík/Reynir 11. Þar eiga Völsungar eftir að mæta báðum keppinautum sínum á lokasprettinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert