KSÍ harmar að nálægðarmörk voru ekki virt eftir Rúmenaleikinn

Leikmenn og starfsfólk landsliðsins fagnaði með Tólfunni í leikslok.
Leikmenn og starfsfólk landsliðsins fagnaði með Tólfunni í leikslok. mbl.is/Kristinn Magnússon

Knattspyrnusamband Íslands hefur sent frá sér tilkynningu vegna umfjöllunar um leiki A-landsliðs karla á Laugardalsvellinum, sóttvarnir og kórónuveiruna og samskipti tiltekinna starfsmanna landsliðsins og leikmanna.

Með annars hefur komið fram að starfsmenn hafi hlaupið inn á völlinn og fagnað leikmönnum íslenska liðsins í leikslok.

Tilkynningin frá KSÍ er svohljóðandi:

Umræddir einstaklingar voru hluti af starfsmannateymi liðsins og voru því á varamannabekk (tæknihluta) liðsins.  Tæknihlutinn er svæðið til hliðar við og aftan við sjálfan varamannabekkinn, svæði sem er afmarkað fyrir þennan hóp, og á því svæði sitja umræddir starfsmenn liðsins og þeir varamenn sem ekki komast fyrir á sjálfum varamannabekknum vegna fjarlægðarmarka.  Allir í þessum hópi eru á meðal þeirra sem mega fara inn á leikflötinn fyrir leik, í hálfleik og eftir leik.  Umræddir starfsmenn á því svæði voru því réttilega á því svæði sem tilheyrir liðinu og fóru ekki á neinum tímapunkti á milli svæða/hólfa á leikvanginum.  Allir starfsmenn liðsins voru jafnframt hluti af „búbblu“ liðsins og hafa farið reglulega í skimun (jafn oft og leikmenn), eru hitamældir við komu á leikvang og annað slíkt.

Það er auðvitað leitt að starfsfólk landsliðsins hafi ekki virt nálægðarmörk í umræddu tilviki og sinnt sínum skyldum varðandi grímunotkun, sem er nokkuð sem við hefur verið minnt reglulega á innan raða liðsins.  Tilfinningar eru stór hluti af íþróttum, fólk upplifir stórar hæðir og miklar lægðir, og stundum ráða þessar tilfinningar för og menn gleyma sér.  Það afsakar ekki það sem gerðist, en gefur allavega skýringu.  KSÍ mun áfram halda sóttvarnarskilaboðum á lofti, leitast við að gera betur og standa undir þeirri ábyrgð sem knattspyrnuhreyfingunni er ætlað í samfélaginu.

mbl.is