Ekki teflt á tvær hættur hjá íslenska landsliðinu

Arnór Ingvi Traustason verður fjarri góðu gamni þegar Ísland mætir …
Arnór Ingvi Traustason verður fjarri góðu gamni þegar Ísland mætir Ungverjalandi í Búdapest á fimmtudaginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engir áhorfendur verða á Puskás Aréna í Búdapest í Ungverjalandi á fimmtudagskvöld þegar heimamenn taka á móti Íslandi í hreinum úrslitaleik um sæti á Evrópumeistaramótinu næsta sumar. Ungverska knattspyrnusambandið var búið að selja tuttugu þúsund miða á leikinn en Viktor Orbán, forseti þjóðarinnar, boðaði hertar sóttvarnaaðgerðir í gær til þess að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar. Miðarnir verða endurgreiddir og völlurinn verður tómur. Það mun þó ekki aðeins vanta áhorfendur heldur sterka leikmenn einnig, í bæði lið.

Þær fréttir bárust í gær að íslenski landsliðsmaðurinn Arnór Ingvi Traustason myndi sitja hjá og er skarð fyrir skildi hjá liðinu. Arnór varð sænskur deildarmeistari með liði sínu Malmö um helgina en strax í kjölfarið greindist fyrirliði liðsins með veiruna. Arnór sjálfur reyndist neikvæður eftir skimun fyrir veirunni en ákveðið var að tefla ekki á tvær hættur og ferðaðist hann því ekki til Þýskalands þar sem landsliðið heldur í herbúðir í Augsburg.

„Við tókum þá ákvörðun að ég yrði ekki með og við teljum það vera fyrir bestu, eins leiðinlegt og það er,“ sagði Arnór Ingvi í samtali við Morgunblaðið í gær. „Það er algjör óþarfi að taka einhverja áhættu.“

Ekkert við því að gera

Arnór hefur átt erfitt uppdráttar í Malmö á árinu og hefur tímabilið í Svíþjóð verið honum súrsætt, þótt liðið hafi staðið uppi sem sigurvegari í keppninni. Hann spilaði sjálfur minna en hann átti von á en hefur engu að síður gegnt mikilvægu hlutverk í landsliðinu og var í byrjunarliðinu sem vann sigur á Rúmeníu í undanúrslitum umspilsins í síðasta mánuði. Það er því að vonum svekkjandi að hann geti ekki fylgt því eftir með því að spila á fimmtudaginn.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert