Íslensku strákarnir ekki hættir

Hörður Björgvin Magnússon, Hannes Þór Halldórsson, Aron Einar Gunnarsson, Guðlaugur …
Hörður Björgvin Magnússon, Hannes Þór Halldórsson, Aron Einar Gunnarsson, Guðlaugur Victor Pálsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það sem ég hef lært af þessum leikmönnum er að þeir eru ennþá hungraðir. Ef þú hefur þetta hungur þá skiptir aldurinn engu máli,“ sagði vígreifur Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlaliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi í Búdapest í gær fyrir hreinan úrslitaleik Íslands og Ungverjalands um sæti á EM næsta sumar. Leikurinn fer fram á Púská Aréna klukkan 19:45 í kvöld.

Hamrén var að svara spurningu ungversks blaðamanns um hvort þetta væri síðasti séns þessarar kynslóðar íslenska landsliðsins að komast á stórmót, það þriðja í röð hjá þessum ótrúlega sigursæla hópi.

„Að mínu mati erum við að fara að spila við mjög gott lið. Ungverjar hafa verið sterkir í Þjóðadeildinni sérstaklega og við eigum von á erfiðum leik,“ bætti Hamrén við. Íslenska liðið er þó klárt í slaginn.

Tími til að láta verkin tala

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson svaraði einnig spurningunni um framtíð hópsins: „Við erum ekki hættir, ekki nærri því. Ég lít ekki á þetta sem einhvern síðasta dans, það myndi bara setja of mikla pressu á okkur,“ sagði fyrirliðinn. Það verður nú samt að teljast líklegt að leikurinn í kvöld, og mögulega Evrópumeistaramótið næsta sumar, verði einmitt það fyrir nokkra af okkar reyndustu mönnum. Fimmtán af þeim 23 leikmönnum sem skipa hópinn eru þrítugir eða eldri. Kári Árnason er 38 ára, Hannes Þór Halldórsson 36, Birkir Már Sævarsson 35 og Ragnar Sigurðsson 34. En það er líka akkúrat sú reynsla sem Aron Einar vonar að dugi til að koma liðinu yfir línuna í kvöld.

„Við höfum reynsluna úr stóru leikjunum sem komu okkur á EM og HM og vonandi hjálpar það. Í svona leikjum er þetta yfirleitt þannig að sá sem gerir fæst mistök stendur uppi sem sigurvegarinn.“

Fjallað er um leik Íslands og Ungverjalands í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert