Niðurstaða er í augsýn

Stjarnan fékk sæti í Evrópukeppni á næstu leiktíð en KR …
Stjarnan fékk sæti í Evrópukeppni á næstu leiktíð en KR sat eftir með sárt ennið þegar keppni var hætt. Liðin áttu eftir að mætast innbyrðis. mbl.is/Íris

Áfrýjunardómstóll Knattspyrnusambands Íslands kvað upp dóma í málum Fram og KR gegn stjórn sambandsins á föstudaginn en hann felldi þar úr gildi úrskurð aga- og úrskurðarnefndar og vísaði málunum aftur til nefndarinnar.

Margir eru þessum málum vel kunnugir en málavextir eru stuttlega þeir að bæði félög kærðu stjórn KSÍ til aga- og úrskurðarnefndar eftir að hún tók ákvörðun um að hætta keppni á Íslandsmótum sínum þann 30. október síðastliðinn. KR-ingar töldu að stjórninni hefði verið óheimilt að setja á laggirnar bráðabirgðareglugerð vegna kórónuveirufaraldursins en hætt var keppni á grundvelli hennar. Töldu KR-ingar stjórnina hafa farið gegn lögum sambandsins. Framarar kröfðust þess að ógilt yrði sú ákvörðun að veita Leikni úr Reykjavík sæti í úrvalsdeild á sinn kostnað en bæði lið voru jöfn að stigum þegar keppni var hætt. Töldu Framarar að stjórnina hefði skort heimild í reglugerðinni til að taka umrædda ákvörðun.

Nefndin úrskurðaði í málum félaganna mánudaginn 16. nóvember og vísaði þeim báðum frá, enda taldi hún það ekki á valdsviði sínu að beita stjórn KSÍ viðurlögum og vísaði meðal annars til þess að stjórnin gæti samkvæmt lögum ekki verið varnaraðili í málum innan sambandsins. Framarar og KR-ingar gagnrýndu þessa niðurstöðu og töldu það ekki boðlegt að stjórn KSÍ gæti tekið ákvörðun sem síðan enginn aðili gæti tekið til endurskoðunar, sér í lagi í ljósi þess að aðildarfélögunum er einnig óheimilt að bera ágreiningsmál sín innan vébanda sambandsins undir almenna dómstóla. Báðir aðilar áfrýjuðu málum sínum til dómstólsins og sagði Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, að Vesturbæingar myndu ekki una því að málið fengi ekki efnislega meðferð, jafnvel ef það þýddi að leita þyrfti út fyrir dómstól sambandsins.

„Það er oft þannig í íþróttunum að stjórnskipulagið er öðruvísi, sérsamböndin setja sér eigin lög og reglur sem virðast stundum vera óháðar því sem gildir í samfélaginu,“ sagði Ragnar Baldursson, lögmaður með meistaragráðu í íþróttarétti frá De Montfort-háskólanum á Englandi, við Morgunblaðið sem sló á þráðinn til hans til að ræða málaferlin stuttlega. Hann segist fagna því að málin fái efnislega meðferð innan KSÍ en annars hefðu félögin sennilega getað leitað réttar síns annars staðar.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert