Flókin staða þar sem hvert mark Íslands gæti ráðið úrslitum

Byrjunarlið Íslands gegn Slóvakíu. Á þriðjudag mætir liðið Ungverjum í …
Byrjunarlið Íslands gegn Slóvakíu. Á þriðjudag mætir liðið Ungverjum í Búdapest. Ljósmynd/KSÍ

Hvert einasta mark í leiknum gegn Ungverjum í Búdapest á þriðjudaginn kemur getur ráðið úrslitum um hvort íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu kemst beint í lokakeppni EM 2022 eða hvort það þarf að fara í umspil.

Ísland tryggði sér annað sætið í F-riðli með sigrinum gegn Slóvakíu í gærkvöld, 3:1, og er því öruggt með umspilssæti.

Þrjú bestu lið af níu sem enda í öðru sæti komst hinsvegar beint á EM á Englandi og sleppa við umspilið.

Sem stendur er Ísland í ágætri stöðu, í öðru sæti þegar liðunum níu er raðað upp miðað við stöðuna fyrir leiki þriðjudagsins þegar keppni lýkur í flestum undanriðlunum.

En þar má hinsvegar ekkert útaf bera. Ísland er með 16 stig og nokkuð ljóst er að 19 stig þarf til að eiga möguleika á að ná einu af þessum þremur sætum. Ekkert annað en sigur kemur því til greina. 

Fjórir aðrir riðlar með svipaða stöðu

Í fjórum öðrum riðlum eru liðin í öðru sæti mjög svipaða stöðu og Ísland og í raun gæti komið upp sú staða að fimm lið verði öll með 19 stig og markatala ráði um hvaða þrjú af þeim fari áfram.

Markatala Íslands er 24:5, nítján mörk í plús, og yrði því að lágmarki 20 mörk í plús ef sigur vinnst í Búdapest en leikur Ungverjalands og Íslands hefst kl. 14.30. Að honum loknum gæti tekið við erfið bið eftir úrslitum annarra leikja. Vinni Ísland ekki leikinn má hinsvegar strax fara að búa sig undir umspilið.

Belgía og Sviss - allt nema jafntefli

Í H-riðli er Sviss með 19 stig og Belgía 18 stig og liðin mætast í hreinum úrslitaleik um sigur og sæti á EM í Belgíu á þriðjudaginn. Fyrir Ísland yrði best að annaðhvort liðið ynni, því þá yrði hitt liðið fyrir neðan Ísland - svo framarlega sem sigur vinnst á Ungverjum. En verði jafntefli, væru Belgar í öðru sæti með 19 stig og 28 mörk í plús og þá væntanlega fyrir ofan Ísland. Viðureign Belgíu og Sviss hefst kl. 19 um kvöldið.

Austurríki á sama stað og Ísland

Í G-riðli tryggði Frakkland sé sigur og sæti á EM í kvöld með 3:0 sigri á Austurríki í hreinum úrslitaleik og er með 19 stig.  Austurríki er með 16 stig og markatöluna 21:3, átján mörk í plús, en á heimaleik gegn Serbum sem hefst kl. 17.30 á þriðjudag. Austurríki og Ísland gætu endað nánast hnífjöfn þegar upp verður staðið.

Hvað gera Ítalir í Danmörku?

Í B-riðli hafa Danir þegar tryggt sér sigur og sæti á EM. Ítalía er í öðru sæti en þar sem þetta er sex liða riðill eru leikir gegn botnliðinu, Georgíu, strikaðir út þegar árangur í öðru sæti er reiknaður. Ítalía er með 15 stig, markatöluna 18:5, og á eftir að spila tvo leiki. Sá fyrri er gegn Dönum á útivelli á þriðjudaginn klukkan 16.15. Þar gætu Danir farið langt með að tryggja Íslandi sæti á EM með því að vinna Ítali. En nái Ítalir í eitt eða þrjú stig í Viborg og verði með 16 eða 18 stig, gæti þurft að bíða fram í febrúar með endanlega niðurstöðu því þeir eiga eftir heimaleik gegn Ísrael sem var frestað í haust. Þar ættu Ítalir að eiga alla möguleika á að vinna og koma sér í 19 eða 21 stig. Þeir verða með pálmann í höndunum,  takist þeim að sigra Dani. 

Bið fram í febrúar eftir E-riðlinum?

Í E-riðli er staðan flóknust því þar verða að loknum leikjum þriðjudagsins enn óleiknar tvær umferðir vegna frestana og þeir leikir fara ekki fram fyrr en í febrúar. Portúgal og Finnland eru bæði með 13 stig og eiga þrjá leiki eftir, þar á meðal innbyrðis leik í Finnlandi. Skotar eru með 9 stig og gætu náð öðru sæti en myndu aldrei ógna Íslandi. Skotar fá Finna í heimsókn kl. 19.30 á þriðjudagskvöld og gætu hjálpað Íslandi mikið með því að sigra Finnana. Portúgal á heimaleik gegn Albaníu kl. 17.45. 

Í hinum riðlunum eiga liðin sem enda í öðru sæti ekki raunhæfa möguleika á að fara beint á EM nema mörg óvænt úrslit líti dagsins ljós á þriðjudaginn. Rússar gætu farið beint á EM ef nokkur áðurgreindra liða misstíga sig en þeir eru öruggir í umspilið úr A-riðli. Annars eru Norður-Írland, Wales og Hvíta-Rússland öll í baráttu um annað sætið í C-riðli, Tékkar standa vel að vígi í baráttu við Pólverja í D-riðli og Írar slást við Úkraínu um annað sætið í I-riðli.

Geta ekki fagnað í leikslok í Búdapest

Það eina sem er öruggt er að þegar flautað verður til leiksloka hjá Ungverjalandi og Íslandi í Búdapest á þriðjudaginn getur íslenska liðið ekki fagnað því að vera komið á EM, þó það myndi knýja fram sigur í leiknum. Staðan mun hinsvegar skýrast smám saman eftir því sem líður á daginn og kvöldið og áðurnefndum leikjum lýkur.

Mögulega verður Ísland komið á EM eftir leik Austurríkis og Serbíu, mögulega eftir leik Belgíu og Sviss, en mögulega þarf að bíða fram í febrúar eftir því að niðurstaða fáist í það hverjir verði komnir beint á EM og hverjir þurfi að fara í sex liða umspilið um þrjú síðustu sætin á EM. Við eigum fyrir höndum spennuþrunginn þriðjudag!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert