Eyjamenn fá mikinn liðstyrk

Guðjón Pétur Lýðsson í leik með Breiðabliki á móti ÍBV.
Guðjón Pétur Lýðsson í leik með Breiðabliki á móti ÍBV. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Guðjón Pétur Lýðsson er genginn til liðs við ÍBV og leikur með liðinu í 1. deild karla, næstefstu deild, á næsta keppnistímabili.

ÍBV greinir frá þessu á vefsíðu sinni í kvöld en Guðjón gerði tveggja ára samning við ÍBV.

Guðjón Pétur kemur til ÍBV frá Breiðabliki. Guðjón er uppalinn í Haukum og hjá Álftanesi en hefur einnig verið hjá Val, Stjörnunni og KA hérlendis en lék ekki með KA á Íslandsmótinu. Þá lék hann hluta úr tímabili með Helsingborg þar sem hann varð sænskur meistari. 

Hann er 33 ára gamall miðjumaður og hefur á ferlinum spilað 260 deildaleiki og skorað 54 mörk. Þar af eru 203 leikir og 45 mörk í íslensku úrvalsdeildinni.

Eyjamenn hafa því enn frekar styrkt sitt lið en þeir höfðu áður fengið til sín miðvörðinn Eið Aron Sigurbjörnsson frá Val og sóknarmanninn Gonzalo Zamorano frá Víkingi í Ólafsvík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert