Íslandsmóti karla seinkar lítillega

Valsmenn eiga titil að verja á Íslandsmóti karla.
Valsmenn eiga titil að verja á Íslandsmóti karla. mbl.is/Þorsteinn

Miðað við þær forsendur sem nú eru ætti Íslandsmótið í efstu deild kvenna í knattspyrnu að hefjast á þeim tíma sem fyrirhugað var og fyrstu leikjum í efstu deild karla að seinka lítillega.

Mbl.is hafði samband við Birki Sveinsson mótastjóra KSÍ í ljósi tíðinda dagsins en fram kom hjá heilbrigðisráðherra í dag að íþróttakeppni verði leyfð á ný þegar líður á vikuna.

„Við erum auðvitað að fara yfir stöðuna eins og hún er. Við munum að öllum líkindum geta látið öll mót hjá öllum aldurshópum fara eins og drög sem hafa verið gefin út segja til um, nema Mjólkurbikar karla og Pepsí Max-deild karla. Við erum að fara yfir þær hugmyndir sem við höfum haft. Fyrirséð er að Pepsí-deildinni muni seinka um einhverja daga, kannski viku. Liðin þurfa hæfilegan tíma til undirbúnings fyrir fyrsta leik. Við stefnum að því að forkeppni bikarkeppninnar hefjist nánast eins fljótt og hægt er en þó verður það ekki um næstu helgi,“ sagði Birkir þegar mbl.is hafði samband við hann í dag. 

Áætlað er að efsta deild kvenna, Pepsí Max-deildin, hefjist 4. maí. Til stóð að efsta deild karla myndi hefjast 22. apríl. 

„Við erum að reyna að forma niður hugmyndir okkar um hvernig upphaf knattspyrnusumarsins verður. Að mörgu er að hyggja í því. Við fundum í dag og væntanlega á morgun til að ljúka því,“ bætti Birkir við.  

Breiðablik varð Íslandsmeistari kvenna í fyrra.
Breiðablik varð Íslandsmeistari kvenna í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert