Völsungur, ÍR og KF byrja vel

Sæþór Olgeirsson skoraði tvö mörk fyrir Völsung á Reyðarfirði.
Sæþór Olgeirsson skoraði tvö mörk fyrir Völsung á Reyðarfirði. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Völsungur, ÍR og KF innbyrtu sigra í þremur leikjum í fyrstu umferð 2. deildar karla í knattspyrnu sem fram fóru í gær.

Völsungar frá Húsavík gerðu góða ferð austur á Reyðarfjörð þar sem þeir unnu Fjarðabyggð 3:0 í Fjarðabyggðarhöllinni. Mörkin komu á fyrstu 35 mínútunum, Austfirðingar skoruðu sjálfsmark eftir aðeins fimm mínútur og síðan bætti Sæþór Olgeirsson við tveimur mörkum.

ÍR sigraði Leikni frá Fáskrúðsfirði 2:0 í Mjóddinni. Arian Ari Morina kom ÍR yfir eftir fimmtán mínútna leik og reynsluboltinn Axel Kári Vignisson bætti við marki snemma í seinni hálfleiknum. Góð úrslit fyrir ÍR-inga gegn Leiknisliði sem var sterkt á undirbúningstímabilinu.

KF, lið Siglfirðinga og Ólafsfirðinga, sótti Kára heim í Akraneshöllina og fór norður með stigin þrjú eftir 3:2-sigur. Oumar Diouck kom KF yfir en Jón Vilhelm Ákason og Gabríel Þór Þórðarson svöruðu fyrir Kára sem var 2:1 yfir í hálfleik.

Theodore Wilson jafnaði fyrir KF í byrjun síðari hálfleiks og Káramenn misstu Andra Júlíusson af velli með rautt spjald. Norðanmenn nýttu sér liðsmuninn og Ljubomir Delic skoraði sigurmark þeirra á 86. mínútu, 3:2.

Fyrstu umferðinni lýkur á morgun með leik KV og Magna en fyrstu tveir leikirnir fóru fram í gærkvöld:

Þá fóru fram fyrstu fimm leikirnir í 3. deild karla og úrslit urðu þessi:

Dalvík/Reynir  Víðir 2:1
Elliði  Ægir 1:2
Höttur/Huginn  Sindri 1:0
KFS  Einherji 2:1
Augnablik  ÍH 3:0

KFG og Tindastóll mætast í síðasta leik fyrstu umferðar á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert