Refsað grimmilega fyrir öll mistök

Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH.
Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er alltaf gaman að breyta aðeins til og við höfum fengið góðan tíma til að undirbúa okkur fyrir leikinn sem er góð tilbreyting,“ sagði Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði knattspyrnuliðs FH, í samtali við mbl.is.

FH mætir Sligo Rovers frá Írlandi í fyrri leik liðanna í 1. umferð Sambandsdeildar UEFA á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði á morgun.

„Það er alltaf jafn spennandi að bera sig saman við aðrar þjóðir og sjá hvar maður stendur og ég er þess vegna fullur tilhlökkunar fyrir leiknum á morgun sem leggst mjög vel í mig.

Ég held að allir leikmenn liðsins séu heilir heilsu og klárir í slaginn nema Hjörtur Logi Valgarðsson sem meiddist gegn Breiðabliki seinni hluta júnímánaðar,“ sagði Matthías.

Ólafur Jóhannesson tók við þjálfun FH 21. júní.
Ólafur Jóhannesson tók við þjálfun FH 21. júní. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tíminn af skornum skammti

FH er án sigurs í síðustu sjö deildarleikjum sínum en liðið vann síðast deildarsigur hinn 17. maí gegn HK í Kórnum.

„Við byrjuðum tímabilið vel en gengið undanfarnar vikur hefur ekki verið gott svo við segjum það bara eins og það er. Það gefur okkur ákveðna orku að vera fara spila á móti liði sem þekkir okkur lítið og við sömuleiðis þekkjum þá ekki mikið.

Þetta er líka gott tækifæri fyrir okkur til þess að reyna laga þá hluti sem við höfum verið í vandræðum með. Það er spilað mjög þétt hérna heima og við höfum spilað illa, mætt í leik tveimur dögum seinna, og tíminn til laga ákveðna hluti hefur verið af skornum skammti.

Þá hefur gengið í undanförnum leikjum tekið á leikmannahópinn sem er jákvætt líka því það sýnir að mönnum er ekki sama. Við viljum skila af okkur jákvæðri frammistöðu og vondi tekst það gegn Sligo Rovers.“

Hafnfirðingar eru án sigurs í síðustu sjö deildarleikjum sínum.
Hafnfirðingar eru án sigurs í síðustu sjö deildarleikjum sínum. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Á von á erfiðum leik

Sligo Rovers er í öðru sæti írsku úrvalsdeildarinnar með 38 stig, jafn mörg stig og topplið Shamrock Rovers, eftir fyrstu nítján umferðirnar.

„Ég veit svo sem ekki mikið um Írana ef af því sem maður hefur séð þá er þetta vel spilandi lið og ekki alveg þessi steríótýpa af þessum bresku liðum sem flestir þekkja. Þeir vilja spila boltanum með fram jörðinni og eru með mjög snögga framherja.

Ég spilaði gegn Dundalk með Rosenborg í Evrópukeppni árið 2017 og það voru mjög erfiðir leikir fyrir okkur á þeim tíma. Ég á því von á mjög erfiðum leik á morgun en á sama tíma er fótbolti alltaf fótbolti og möguleikinn er alltaf til staðar.“

FH-ingar vonast til þess að komast áfram í aðra umferð keppninnar.

„Írsku liðin eru hörkulið og á sama tíma hafa íslensk lið ekki verið að gera neinar rósir í Evrópukeppnum undanfarin ár. Við þurfum að vera klárir ef við ætlum okkur að gera eitthvað því þér er refsað grimmilega fyrir öll mistök sem þú gerir þegar komið er inn í svona leik.

Þá skipta þessir leikir gríðarlega miklu máli, fjárhagslega séð, og markmiðið er fyrst og fremst fyrir fyrri viðureignina er að koma okkur í þá stöðu að við eigum góða möguleika á að komast áfram þegar inn í seinni leikinn er komið,“ sagði Matthías í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert