Fásinna að gera þetta öðruvísi

Haraldur Björnsson, markvörður Stjörnunnar.
Haraldur Björnsson, markvörður Stjörnunnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

FH og Stjarnan ferðast saman til Írlands fyrir síðari leiki sína í 1. umferð Sambandsdeildar UEFA í knattspyrnu í næstu viku.

FH mætir Sligo Rovers sem er í öðru sæti írsku úrvalsdeildarinnar á meðan Stjarnan mætir Bohemians sem er í fjórða sætinu.

Fyrri leikir liðanna fara fram á morgun í Kaplakrika í Hafnarfirði annars vegar og á Samsung-vellinum í Garðabæ hins vegar.

„Þetta var þægilegast í stöðunni,“ sagði Haraldur Björnsson, markvörður Stjörnunnar, í samtali við mbl.s um sameiginlegt ferðalag FH og Stjörnunnar til Írlands.

„Okkar leikur er í Dublin á meðan þeirra bíður einhver smá rútuferð frá Dublin. Það hefði verið fásinna að gera þetta einhvernvegin öðruvísi og menn verða að geta sýnt smá samstöðu í þessu líka,“ sagði Haraldur.

Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH, tók í sama streng og er spenntur að komast til útlanda eftir miklar takmarkanir vegna heimsfaraldursins.

„Það eru allir spenntir að komast aftur til útlanda,“ sagði Matthías Vilhjálmsson.

„Ég veit ekki alveg hvernig reglurnar eru varðandi búbblu og annað en sama hvað þá verður held ég bara mjög gaman fyrir okkur sem tökum þátt í Evrópukeppni í ár að sjá eitthvað annað.

Það fór ekkert lið í æfingaferð fyrir mót og þetta hefur verið mjög sérstakt allt saman undanfarið árið,“ bætti Matthías við.

Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH.
Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert