Toppliðin flugu saman í Evrópuverkefni

Valur og Breiðablik deildu saman leiguflugi í Evrópuverkefnum vikunnar.
Valur og Breiðablik deildu saman leiguflugi í Evrópuverkefnum vikunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ferðalagið var einfalt, þægilegt og gekk mjög vel fyrir sig,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í dag.

Blikar mæta Racing frá Lúxemborg í fyrri leik liðanna í 1. umferð Sambandsdeildar UEFA á Josy Barthel-leikvanginum í Lúxemborg á morgun.

„Við tókum vél með Valsmönnum út og þeir hentu okkur svo bara út í Lúxemborg á meðan þeir flugu áfram til Króatíu.

Við leigðum 80 sæta vél fyrir liðin og þetta var auðvitað dýrt og allt það en á sama tíma frábær ferðamáti fyrir okkur.  

Þeir sækja okkur svo bara á fimmtudaginn kemur eftir leikinn og við fljúgum svo samferða heim líka,“ sagði Óskar.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Ekkert búðaráp í Lúxemborg

Vegna kórónuveirufaraldursins eru Blikar nánast í sóttkví í Lúxemborg.

„Við erum ekki í neinni skemmtiferð hérna og reglurnar hérna eru strangar. Við erum í hálfgerðri búbblu ef svo má segja en megum þó fara í göngutúra í grennd við hótelið sem við dveljum á.

Við megum hins vegar ekki fara á eitthvert búðaráp eða blanda geði við hinn almenna Lúxemborgara.“

Valur og Breiðablik eru í efstu sætum úrvalsdeildarinnar en Valsmenn eru með 27 stig í efsta sætinu eftir tólf leiki og Blikar eru með 22 stig í öðru sæti eftir ellefu leiki.

„Stemningin í vélinni á leiðinni var mjög góð þótt það hafi vissulega verið einhverjar sætaraðir á milli liðanna vegna almennra reglna á þessum tímum.

Menn eru mestu mátar utan vallar þótt það geti slegið í brýnu inni á vellinum,“ bætti Óskar Hrafn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert