Hákarlarnir eru fljótir að koma á mann

Höskuldur tekur aukaspyrnu í leiknum í kvöld en hann skoraði …
Höskuldur tekur aukaspyrnu í leiknum í kvöld en hann skoraði úr einni slíkri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, var hinn hressasti eftir að liðið sótti þrjú stig í Garðabæinn í kvöld í Pepsi Max-deildinni í knattspyrnu. 

Skiljanlegt er að Höskuldur hafi verið ánægður. Fyrir utan fín úrslit skoraði hann tvívegis og átti stoðsendingu.

„Ég er ánægður með frammistöðu liðsins á heildina litið. Þeir áttu kafla í síðari hálfleik þar sem þeir þjörmuðu að okkur. Það er alveg við því að búast. Stjarnan er gott lið og með góða einstaklinga. Við bjuggumst ekki sérstaklega við því að vera með stjórn á leiknum í 90 mínútur. Á heildina litið fannst mér þetta vera kröftug og sannfærandi frammistaða,“ sagði Höskuldur þegar mbl.is spjallaði við hann í Garðabænum. 

Evrópuleikir eru krydd í tilveruna fyrir knattspyrnufólk á Íslandi og þar eru Blikar enn þá með en þeir sækja Aberdeen heim í vikunni. Er það þriðji andstæðingur Breiðabliks í Sambandsdeildinni í sumar. Hvernig finnst Höskuldi Blikum hafa tekist að halda einbeitingu á milli Evrópuleikja? 

„Bara vel finnst mér. Þótt þessi umtalaði Keflavíkurleikur hafi komið á milli verkefna í Evrópukeppninni þá fannst mér frammistaðan vera góð þar og í takti við það sem við höfum verið að sýna. Úrslitin voru hins vegar undantekning. Mér finnst við hafa sýnt fagmennsku í þessu.“

Breiðablik tapaði á dögunum fyrir Keflavík og Valur tapaði fyrir Leikni í gær. Leikirnir í deildinni virðast vera óútreiknanlegir. Hvernig sér Höskuldur fyrir sér að toppbaráttan muni þróast? „Fólk hefur verið að kalla eftir því síðustu ár að ekki sé eitt lið búið að stinga af þegar þriðjungur er eftir af mótinu. Vonandi gerist það ekki. Þetta er að þróast í þá átt að deildin verði mjög spennandi bæði í efri og neðri hlutanum. Ég held að þetta sé með skemmtilegri Íslandsmótum í lengri tíma. Mikið hefur verið talað um að liðin í deildinni séu að færast nær hvert öðru að styrk. Mér finnst mótið vera birtingarmynd þess. Við sjáum til dæmis að Leiknir og Keflavík komu sterk inn í deildina miðað við gengi nýliða síðustu ár. Við töpuðum fyrir Keflavík úti og rétt mörðum jafntefli gegn Leikni úti. Við þekkjum frá fyrstu hendi hversu jafnt þetta er orðið. Ef maður stígur aðeins af bensíngjöfinni, þá er blóð í vatninu og hákarlarnir koma á mann. Maður má aldrei slaka á,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert